11.1 C
Selfoss

Sjö milljónir söfnuðust í átaki Nettó og Ljóssins

Vinsælast

Samstarfsverkefni Nettó og Ljóssins hefur skilað sjö milljónum króna, sem renna nú óskipt til endurhæfingar fólks með krabbamein.

Þetta er annað árið í röð sem Nettó og Ljósið efna til samstarfs í júlímánuði, undir heitinu „Kveikjum Ljósið í júlí“ en í fyrra söfnuðust fimm milljónir kr. Í ár var það myndlistarkonan Unnur Stella Níelsdóttir, eigandi Start Studio, sem hannaði listaverk fyrir átakið. Verk Unnar Stellu er af kaffihlaðborði og ber heitið Skína. Prýddi það sundtösku sem seld var í verslunum Nettó auk þess sem selt var sérhannað Jenga-spil.

Auk þess seldi Nettó klósettpappír og safa þar sem ágóði sölunnar rann til átaksins. Átakið gekk sem fyrr segir vonum framar og söfnuðust sjö milljónir króna. Þá mun sá varningur sem enn er óseldur vera til sölu hjá Ljósinu í vetur og allur ágóði rennur áfram til stuðnings við Ljósið.

„Við erum gífurlega stolt af því að fá að leggja okkar af mörkum til að styrkja félag eins og Ljósið, sem veitir þeim sem greinast með krabbamein mikilvæga endurhæfingu og stuðning. Við fundum strax mikinn áhuga hjá okkar viðskiptavinum enda um gífurlega mikilvægt málefni að ræða sem varðar ótal marga landsmenn. Það er líka alveg frábært að í ár hafi safnast enn meira í þessu átaki en í fyrra en það sýnir bara og sannar að almenningur hefur líka trú á þessu verkefni. Á sama tíma skemmir ekki að Unnur Stella er virkilega hæfileikarík listakona og listaverkið hennar, Skína, fangar á svo fallegan hátt þennan þægilega, rólega anda sem mörg hafa talað um að svífi yfir Ljósinu. Varningurinn verður til sölu áfram á meðan birgðir endast í Ljósinu og ég hvet fólk til að næla sér í spil eða poka þar,“ segir Helga Dís Jakobsdóttir, markaðs- og upplifunarstjóri Nettó.

„Fyrir miðstöð eins og Ljósið sem reiðir sig að stórum hluta á stuðning þjóðarinnar er verkefni eins og þetta ómetanlegt. Við erum virkilega þakklát öllu okkar góða fólki hjá Nettó, listakonunni Unni Stellu sem og öllum þeim sem lögðu verkefninu lið með kaupum á vörum. Þessir fjármunir gera okkur kleift að halda áfram að veita þeim sem greinast mikilvæga endurhæfingu,“ segir Sólveig Kolbrún Pálsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri Ljóssins.

Nettó vinnur markvisst eftir samfélagsstefnu Samkaupa þar sem lögð er mikil áhersla á samfélagslega ábyrgð og fyrirtækið hefur mikinn metnað til að vera traustur og virkur þátttakandi í samfélaginu. Árlega styrkir Nettó m.a. verkefni á sviði góðgerðarmála, æskulýðs- og forvarnastarfa, heilbrigðs lífsstíls og umhverfismála.

Nýjar fréttir