Kennarar í Fjölbrautaskóla Suðurlands munu leggja niður störf 29. október til 20. desember ef ekki næst að semja fyrir þann tíma. Skólinn er einn af átta skólum þar sem félagsmenn aðildarfélaga Kennarasambands Íslands kusu um verkfallsaðgerðir.
Auk Fjölbrautaskóla Suðurlands hafa verkföll verið boðuð í Leikskóla Seltjarnarness, Leikskólanum Holti í Reykjanesbæ, Leikskólanum Drafnarsteini í Reykjavík, Leikskólanum Ársölum á Sauðárkróki, Áslandsskóla í Hafnarfirði, Laugalækjarskóla í Reykjavík og Lundarskóla á Akureyri.
Kjörstjórn KÍ kynnti í hádeginu niðurstöður atkvæðagreiðslna um verkfallsaðgerðir. Meirihluti í öllum skólunum sagði já við fyrirhuguðum verkföllum og er áformað að aðgerðir hefjist 29. október.
Þau sem höfðu atkvæðisrétt voru félagsmenn aðildarfélaga Kennarasambandsins sem starfa í viðkomandi skólum og taka laun samkvæmt kjarasamningum KÍ. Þetta voru félagsmenn í Félagi grunnskólakennara, Félagi leikskólakennara, Félagi framhaldsskólakennara, Félagi stjórnenda í framhaldsskólum og Skólastjórafélagi Íslands.