Ingveldur Anna Sigurðardóttir er lögfræðingur frá Varmahlíð undir Eyjafjöllum. Hún starfar sem löglærður fulltrúi sýslumannsins á Suðurlandi. Eitt af þeim verkefnum sem hún fæst við í vinnunni er að gefa fólk saman í hjónaband.
Var með 35 hjónavígslur árið 2023
Ingveldur hefur tekið að sér hjónavígslur frá því hún varð löglærður fulltrúi við embættið. „Samkvæmt 18. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 eru sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra borgaralegir vígslumenn,“ tekur Ingveldur fram í samtali við Dagskrána.
Aðspurð að því hvort það sé mikið að gera í hjónavíslum segir Ingveldur það misjafnt. „Eina vikuna gæti ég verið með tvær til þrjár hjónavígslur og svo ekkert næsta mánuðinn. Mín starfstöð er á Hvolsvelli og því mikið af fallegum stöðum nálægt en flestar hjónavíslurnar fara fram á Selfossi. Það voru 198 hjónavígslur hjá embættinu árið 2023 og þar af var ég með 35.“
Reynisfjara vinsæll staður fyrir hjónavígslur
Einn af þeim stöðum sem eru vinsælir fyrir giftingar er Reynisfjara. „Ég er búin að missa töluna á því hversu oft ég er búin að fara og gifta í Reynisfjöru. Svo er einnig algengt að fara í Víkurfjöru sem er að mínu mati fallegri fyrir hjónavígslur þar sem það er mikið minna af fólki,“ tekur Ingveldur fram.
Ísland er ekki þekkt fyrir góða veðráttu og getur veðrið brugðist á stóra daginn. Ingveldur lenti í því þegar hún átti að gifta ferðamenn í Reynisfjöru. „Þá var alveg grenjandi rigning og brúðhjónin komu prúðbúin og fín. Við afgreiddum vígsluna inni á skrifstofu með ræðu. Þeim fannst það bara mjög gaman og öðruvísi. Þau fóru a.m.k. skellihlæjandi út. Það er svo innbyggt í genin á okkur Íslendingum að redda hlutunum og ég reyni að gera það ef þetta kemur upp á.“
Hún segir það yfirleitt ekki trufla fólk að hafa mikið af öðrum ferðamönnum í kringum sig við hjónavígslur. „Ferðamenn sem gifta sig hérna eru yfirleitt bara tveir saman eða með sína allra nánustu með sér. Oft hafa ferðamenn klappað og ég vil meina að það séu bara fleiri gestir í vígslunni.“
Ferðamenn gifta sig frekar á ferðamannastöðum
Flestar hjónavígslur fara fram á skrifstofum sýslumanna en aðrir staðir á Suðurlandi eru líka vinsælir. „Ég hef gift við Sólheimajökul, Skógafoss, Seljalandsfoss, Reynisfjöru og svo í heimahúsum hérna í kringum Hvolsvöll. Ferðamenn eru mest megnis að gifta sig við þessa hefðbundnu ferðamannastaði og Íslendingar vilja oftast vera hérna á skrifstofunni eða í heimahúsi,“ segir Ingveldur.
Algengara er að Ingveldur gifti erlenda einstaklinga en íslenska. „Það útskýrist líklegast af því hvar ég er staðsett. Fjölsóttustu ferðamannastaðir landsins eru hérna í nágrenninu. Einnig er ekkert vandamál fyrir mig að keyra til Víkur heiman frá mér af því það er jafn langt og að keyra á Hvolsvöll.“
Brúðguminn gleymdi hringnum
Að lokum minnst Ingveldur á eftirminnileg atvik úr vinnunni. „Einu sinni gleymdi brúðguminn hringnum sem var svona frekar óheppilegt. Svo var ég að gifta við Seljalandsfoss og stóð á bílastæðinu að bíða eftir brúðhjónunum. Þá labbaði saklaus ferðamaður upp að mér sem var að velta fyrir sér gjaldtöku á bílastæðinu og spurði mig „Are you the parking master?“. Skil hann mjög vel, þar sem ég var mjög formleg í klæðnaði, þ.á.m. með embættishúfuna.“
Ingveldur segir hjónavíglsur vera meðal skemmtilegri verkefna í vinnunni. „Alltaf mikill heiður að fá að taka þátt í þessum degi hjá einstaklingum.“