Hinn 5. október síðastliðinn söfnuðust afkomendur sr. Eiríks J. Eiríkssonar og Sigríðar Kristínar Jónsdóttur saman til að minnast afmælisdags hennar og þess að fyrir 40 árum afhentu þau hjónin Sýslu- og héraðsbókasafni Árnessýslu bókasafn sitt að gjöf. Steingrímur Jónsson þáverandi forstöðumaður safnsins og Heiðrún Dóra Eyvindardóttir forstöðukona safnsins í dag heiðruðu samkomuna og höfðu meðferðis nokkrar merkar bækur úr safninu, sem Steingrímur fór um fræðandi orðum auk þess að greina frá því hvernig bókagjöfina bar að í starfi hans 5. október 1984. Gjörningurinn fór fram við morgunverðarborð þeirra hjóna að Hörðuvöllum 2 á Selfossi þegar Steingrímur var þar í heimsókn. Gjöfin kom honum mjög í opna skjöldu. Tjáði hann gestum að gjöf þessi stæði upp úr öðru sem hann hefði reynt á sinni starfsævi en hann hefur lengst af starfað við Háskólabókasafnið í Lundi í Svíþjóð.
Stundin var fjölskyldu sr. Eiríks og Kristínar kærkomin og var bókavörðunum þakkað innilega fyrir komuna og ræktarsemi og gott utanumhald við bókagjöfina í þau 40 ár sem liðin eru. Þá höfðu gestir á orði að með frásögn Steingríms hafi þráður hugsjóna þeirra hjóna verið spunninn fagurlega og þess óskað að hann lifði sem lengst með afkomendum ekki síður en viðtakendum í Árnesþingi.
Til glöggvunar fer hér á eftir stutt samantekt Aðalsteins Eiríkssonar um bókasafnið, sem oftast gengur undir heitinu „Eiríkssafn”.
Upphaf bókasafns Eiríks J. Eiríkssonar (1911-1986) og Sigríðar Kristínar Jónsdóttur (1917-1999) konu hans, má rekja til Barnaskólans á Eyrarbakka þar sem Eiríkur fékk frá byrjun uppörvun og hvatningu kennara síns, Aðalsteins Sigmundssonar.
Aðalsteinn var ræktunarmaður í Þrastaskógi, uppalandi og forystumaður kennarafélaga og UMFÍ. Hann sleppti ekki af Eiríki hendinni fyrr en hann hafði komið honum til mennta í Reykjavík og síðar til formennsku í UMFÍ. Þessi mótun og rætur hennar í Árnesþingi voru þeim Eiríki og Kristínu ofarlega í huga þegar þau fólu héraðinu varðveislu og notkun safnsins. Það dró ekki úr að bókasafn Aðalsteins væri þá orðið eign þeirra og hluti hins stærra safns.
Forsendur bókasafns og bókasöfnunar sr. Eiríks voru margbrotnar. Öðru fremur hefur ævistarf hans við kennslu og boðun hvers kyns menntunar, æskulýðsstarfs og hugmyndafræði ráðið aðföngum. Þarfir skólabókasafns eru margvíslegar og sundurleitar. Orðabækur, saga, landafræði og bókmenntir. Eiríkur innritaðist upphaflega í norræn fræði í háskólanum. Þau voru honum alla tíð hugleikin og jafnvel hugleiknari en guðfræði og jafnvel kennslufræði. Alls þessa á sér stað í bókasafninu. Samtímasögu og pólitískra átaka á sér einnig stað, ekki síst í aðdraganda seinni heimsstyrjaldar.
Eftir að fjölskyldan fluttist á Þingvöll og straumur gesta á öllum stigum frá veiðimönnum til gesta ráðherrabústaðar og erlendra ferðamanna jókst, gætti aukinnar áherslu á sögu staðar og héraðs, kristni, alþingis- og sjálfstæðisbaráttu. Þá bættust við bækur úr safni Sveins Björnssonar og Biblíusafnið.
Sú skoðun eða álit var alið upp í börnum þeirra Þingvallahjóna að bækur væru ekki einungis innihald heldur einnig gripir sem flyttu ævi og anda höfunda og eigenda allra sem handléku og varðveittu frá einni kynslóð til annarrar. Bækur, blöð, ritlingar, sérprent og efni prentmálsins lifnaði næstum í höndum hans og umfjöllun. Í þessu fólst að verðmæti hins safnaða efnis fólst ekki nema að litlum hluta í leðri bandsins eða gyllingu kjalarins…. „hvar sem ég fletti, við eyru mér ólguðu og sungu, uppsprettulindir og niðandi vötn minnar tungu“ (Jón Helgason, Kvæðabók, Í Árnasafni. Rvk. 1986.)
Sr. Eiríkur sá ekki fyrir, fremur en margur annar, þá byltingu sem fólst í tölvutækninni, tilflutningi fræðsluhlutverks bókasafna til alheimsnetsins. Stafræn varðveisla alls efnis annars en bókanna sjálfra sem gripa er fyrirsjáanleg. Þar með eru kaflaskil í varðveislu safns sr. Eiríks eins og allra annarra bókasafna.