11.1 C
Selfoss

Riftur samningur í Katar leiddi til flutninga til Balí

Vinsælast

Hvergerðingurinn Guðbjörg Valdimarsdóttir er á hraðri leið upp í CrossFit-heiminum. Hún flutti til Doha í Katar í sumar með kærastanum sínum, Jóni Inga, til þess að geta einbeitt sér að greininni.

Týpan til að flytja lengst í burtu í óvissu

Guðbjörg flutti til Katar fyrir tilstilli Sólveigar Sigurðardóttur, sem er með fremstu CrossFit-iðkendum á Íslandi. Þar áttu þær að sjá um líkamsræktarstöð saman. „Hún flutti út fyrir ári síðan og stuttu eftir að hún fór út þá heyrði hún í mér vegna þess að sú sem réð hana var að leita að einhverjum öðrum líka til að koma og vinna í þessari líkamsræktarstöð. Hún mælti með mér og datt í hug að ég væri týpan sem væri til í að fara og flytja eitthvert lengst í burtu í einhverja óvissu, sem var alveg rétt hjá henni. Þá endaði ég bara á að koma út,“ segir Guðbjörg í samtali við Dagskrána.

Ekki allt eins og það átti að vera

Aðspurð að því hvað Guðbjörg sé að gera í Katar segist hún ekki vera að gera það sem hún átti að gera. Hún var ráðin í líkamsræktarstöð sem var ekki búin að opna þegar hún kom til Katar. „Þeir vildu fá mig aðeins fyrr til að koma mér fyrir og kynnast fólki og byggja upp tengslanet hérna áður. Þau voru alltaf að segja að þetta væri alveg að fara að opna. Sólveig var búin að vera hérna í hálft ár í óvissu þannig að ég bjóst heldur ekkert við að þetta myndi opna strax þegar ég kæmi.“ Bæði hún og Sólveig voru á launum á meðan þær biðu eftir að líkamsræktarstöðin myndi opna. „Ég hafði svo sem ekkert á móti því. Það hentar mínum lífsstíl vel að geta æft mjög mikið og fókusað á það og verið að vinna lítið. Ég átti samt að vera að gera eitthvað. Ég vissi í rauninni ekkert út í hvað ég var að fara. Ég kem hingað út og held að ég sé að fara að þjálfa einhvern einstakling á meðan verið er að opna stöðina en svo varð ekkert úr því strax. Ég fór aðeins að þjálfa yfirmanninn minn og svo slitu þau samningnum mínum upp úr þurru,“ tekur Guðbjörg fram.

Guðbjörg með Sólveigu Sigurðardóttur.
Ljósmynd: Instagram/guccivaldimarsdottir.

Þurfti að flytja út á innan við viku

Guðbjörg gerði þriggja mánaða samning við eigendur líkamsræktarstöðvarinnar sem átti upphaflega að vera gerður fyrir hana svo hún gæti séð hvernig allt gengi fyrir sig og hvort hún hefði áhuga á að halda áfram eftir að samningurinn liði. „Svo þegar við erum komin tvo og hálfan mánuð inn í þennan samning þá segja þau við mig að þau geti ekki borgað þriðja mánuðinn og þurfi að slíta samningnum af því að stöðin sé ekki að fara að opna á næstunni. Ég þurfi að flytja út á innan við viku.“ Guðbjörg var mjög ósátt þar sem hún hafði yfirgefið líf sitt á Íslandi til þess að sinna þessu. Hún sagði upp vinnunni sinni og leigði út íbúð Jóns Inga, kærasta síns. Áttu þau því engan samastað á Íslandi lengur. „Við gætum alltaf farið til mömmu og pabba, það er samt ekkert óskandi, það var ekki planið,“ segir Guðbjörg.

Samstarfið við stöðina endaði illa. Þau slitu líka samningnum við Sólveigu og allt fór í háaloft. „Þau voru búin að lofa alls konar sem þau stóðu ekki við. Ég fékk þessa fyrstu tvo mánuði borgaða og það var bara geðveikt en síðan var ég búin að gera skuldbindingar út september þannig ég var ekkert að fara að fara héðan. Ég var að fara til Egyptalands að keppa ásamt því að keppa hér í Doha. Ég gat því ekkert farið fyrr en í lok september,“ segir Guðbjörg.

Guðbjörgu og Jóni Inga líður mjög vel í Katar. „Við vorum alveg tilbúin að vera hérna í allavega ár, kannski lengur. Það er sjúklega næs að búa hérna og ég og Jón Ingi fílum það mikið.“

Búa í einu litlu herbergi

Áður en Guðbjörg og Jón Ingi þurftu að flytja út bjuggu þau í flottri fimm stjörnu íbúð sem eigendur líkamsræktarstöðvarinnar sköffuðu þeim. Þegar samningnum var rift þurftu þau að flytja burt á innan við viku og fluttu til vinkonu Guðbjargar sem hún hafði kynnst í gegnum Sólveigu. „Hún er með gestaherbergi sem við búum í. Núna erum við með allt draslið okkar í einu litlu herbergi, tvö sitthvor rúmin, við erum ekki í sama rúmi. Við erum búin að búa í mánuð í ferðatösku. Allt dótið okkar er í hrúgu,“ segir Guðbjörg.

Guðbjörg ásamt kærasta sínum, Jóni Inga.
Ljósmynd: Instagram/guccivaldimarsdottir.

Flytja til Balí

Í kjölfarið af þessu öllu saman hafa þau og Sólveig og Dóri, kærasti hennar, ákveðið að flytja til Balí. Þau standa í þeim flutningum um þessar mundir. Aðspurð að því af hverju þau ætli þangað segir Guðbjörg að hátt verðlag í Katar sé ein ástæðan. „Allt er svo geðveikt dýrt hérna, dýrara en á Íslandi. Þetta er lúxusborg. Við hefðum lifað mjög vel á þeim launum sem ég var með þessa fyrstu tvo mánuði en við getum ekki lifað án þeirra launa hér.“

Byrja þjálfun á netinu

Guðbjörg segir að þau vinirnir séu búin að skipuleggja nokkurn veginn hvað þau ætli að gera á Balí. „Við erum búin að ákveða að vera öll fjögur saman í því að byrja netþjálfun. Það er betra að gera það á Balí af því að þar er allt margfalt ódýrara en í Katar þannig að við getum lifað mun ódýrara.“ Hún og Sólveig ætla að vera andlit þjálfunarinnar þó að strákarnir verði með þeim í þessu. „Planið okkar allavega til að byrja með er að keyra hópa af stað og við erum fyrst að hugsa um konur og karla á aldrinum 40+. Þetta er í rauninni ekki CrossFit prógram beinlínis. Þú getur verið með aðgang að hvaða líkamsræktarstöð sem er. Þetta er bara alhliða betri heilsa, betra líf prógram.“ Þau ætla að byrja á því að vera með íslenskan kúnnahóp. Planið þeirra er að vera á Balí og einbeita sér að þessu allavega fram að jólum og sjá svo til með framhaldið. „Við komum heim í jólafrí og svo sjáum við hvert við förum, við förum hundrað prósent eitthvert. Þetta er allt mjög opið.“

Hentar vel að geta æft í útlöndum

Aðspurð að því hvernig gangi í CrossFit segir Guðbjörg það ganga mjög vel. „Það hentar mér mjög vel að vera í útlöndum finnst mér. Heima á maður vini og fjölskyldu frá því maður fæddist, mismunandi vinahópa. Manni er alltaf boðið í skírnir og babyshower og hitt og þetta. Fyrir mig er rosalega erfitt að segja nei, ég geri það stundum en þá fæ ég samviskubit. Það virkar mjög vel fyrir mig að vera búin að taka mig úr þessum aðstæðum og geta ekki mætt. Ég get einbeitt mér mun meira að æfingunum.“

Guðbjörg keppti nýlega á CrossFit-móti í Egyptalandi þar sem hún bar sigur úr býtum. „Ég er búin að keppa á tveimur mótum eftir að ég kom hingað og búin að vinna þau bæði. Það var lókal lyftingamót sem var hér í Doha og síðan þetta í Egyptalandi, það var alþjóðlegt. Það var til dæmis ein grísk stelpa sem lenti í öðru sæti sem var mjög góð og mjög hörð samkeppni. Hún hefur alltaf endað hærri en ég á allavega síðustu tveimur CrossFit Cames tímabilum, þannig að það var geggjað að vinna hana. Þetta er fyrsta mótið mitt erlendis í CrossFit sem ég vinn.“

Ljósmynd: Aðsend.

Stefnir á CrossFit Games

Guðbjörg er mjög metnaðarfull í CrossFit og stefnir á CrossFit Games, sem er stærsta CrossFit-mót í heimi. „Það er búið að vera alveg stefnan síðustu tvö ár. Ég veit að þetta er mjög langt ferli og sérstaklega þar sem samkeppnin er orðin mjög hörð. Það eru margar mjög góðar á háu stigi. Núna er íþróttin orðin aðeins eldri þannig að fólk er búið að vera lengur í þessu. Fyrir ekki það löngu síðan þá voru allir frekar nýir og þetta var aðeins jafnari keppni.“

Guðbjörg er nær því með hverju árinu að komast á heimsleikana. „Það er semifinal sem er fyrsta keppnin sem er eins og Evrópukeppni og ég var tíu sætum frá því að komast inn á það í ár. Ég held að um leið og ég sé komin þangað þá séu heimsleikarnir komnir aðeins nær manni,“ segir hún að lokum.

Nýjar fréttir