-1.6 C
Selfoss

Undirliggjandi minni í Félagslundi í Flóahreppi

Vinsælast

Myndlistarverkið Undirliggjandi minni eftir Ólaf Svein Gíslason verður sýnt í félagsheimilinu Félagslundi í Flóahreppi frá 5. til 20. október 2024. Opið verður daglega frá kl. 15:00 til 19:00 og eftir samkomulagi í síma 661-0146. Sýningaropnun er 5. október kl. 15:00. Allir velkomnir.

Undirliggjandi minni er leikið kvikmyndaverk sem byggt er á æskuminningum þriggja einstaklinga sem ólust upp í Flóahreppi, áður Gaulverjabæjarhreppi. Bernskuminningar liggja oft á mörkum þess ómeðvitaða, það er ekki alltaf ljóst hvað er frásögn annarra og hvað er eigin upplifun. Það geta verið ljósmyndir, staðir eða hlutir sem bera með sér frásagnir og sögur sem eru forsendur eigin minninga. Þegar grannt er skoðað eru eigin minningar til staðar, tilfinningaleg skynjun umhverfisins. Hvert er samband innri og ytri veruleika? Persónulegur reynsluheimur er viðfangsefni verksins en jafnframt hvar hverfulleiki og mörk minninga liggja.

Þátttakendur eru:

Guðjón Helgi Ólafsson frá Ásgarði

Valdimar Elí Viðarsson

Anný Ingimarsdóttir frá Vorsabæjarhjáleigu

Ottó Ingi Annýjarson

Margrét Jónsdóttir frá Syðri-Velli

Kristjana Ársól Stefánsdóttir

Ásgerður Saga Stefánsdóttir

Minningar þátttakendanna tengjast á áhugaverðan hátt í fjósum tímans um og eftir 1970, þar sem miklar breytingar áttu sér stað í búskaparháttum. Upplifanir af bústörfum og heimilisfólki, kúm, fjósaköttum og músum vega þungt í huga barnsins. Þannig er fjósið ákveðin þungamiðja verksins og var að hluta kvikmyndað í fjósinu í Gaulverjabæ. Svið kvikmyndarinnar er jafnframt utandyra, á stöðum sem tengjast eigin minningum þátttakenda, í heimabæjum og oftast við aðstæður þar sem hús, munir og fólk er horfið af vettvangi þess viðfangsefnis sem fjallað er um.

Einstaklingarnir þrír, sem eru uppspretta verksins, leika einnig í kvikmyndinni ásamt börnum sem þeim tengjast, þeirra eigin börn eða þeim nákomin. Börnin eru miðlar inn í bernsku fullorðna fólksins í verkinu. Þau framkalla hugmyndir um framtíðina með viðveru sinni, ásamt því að vera útvíkkun þeirra sjálfs, eigin minninga þess fullorðna.

Félagsheimilið Félagslundur er hluti af sögusviði verksins, þar sem það hefur verið samverustaður þessa samfélags í langan tíma. Það er mikilvægur þáttur verksins að sýna það í tengslum við staðhætti og uppruna þeirra frásagna sem eiga sér stað í verkinu. Undirliggjandi minni er skipt upp í þrjár kvikmyndir: Djúpur rauður,Mjúkur brúnn og Léttur grænn sem mynda samhangandi þrískipt kvikmyndarými. Tími og rými minninganna færast á milli kvikmyndanna þar sem ólík augnablik upplifana skarast og skapa nýja rýmisheild í Félagslundi.

Ólafur Sveinn Gíslason lauk námi úr skúlptúrdeild Myndlistar- og handíðaskóla Íslands árið 1983 og var við nám við Listaháskólann í Hamborg frá 1983-1988. Eftir nám starfaði hann að myndlist í Þýskalandi til ársins 2009, að verkefnum sem hafa verið sýnd í galleríum, listasöfnum og í opinberu rými víða í Evrópu og annars staðar. Það sem helst einkennir verk hans er hin félagslega vídd þar sem málefni og staðir eru mikilvægur grunnur. Einstaklingar sem notendur rýma er viðfangsefni út frá málefnum samfélagsins og listrænum nálgunarleiðum. Ólafur starfaði sem prófessor við Listaháskóla Íslands frá 2007 til 2016. Einnig hefur hann haldið fyrirlestra og kennt við listaháskóla víða í Evrópu.

Ólafur Sveinn Gíslason, myndlistarmaður.
Ljósmynd: Aðsend.

Verkefnið er styrkt af Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Myndstefi, Myndlistarsjóði og Flóahreppi.

Nýjar fréttir