-2.1 C
Selfoss

Kærleikur og samstaða í Grunnskólanum í Þorlákshöfn

Vinsælast

Í vikunni voru haldnir kærleiksdagar í Grunnskólanum í Þorlákshöfn, þar sem áhersla var lögð á mikilvægi þess að sýna hvert öðru góðvild og hlýju í daglegu lífi. Dagarnir gengu vel, og bæði nemendur og starfsfólk tóku virkan þátt í umræðum um hvernig við getum öll veitt stuðning og kærleika, bæði gagnvart öðrum og ekki síst okkur sjálfum.

Í tilefni kærleiksdaganna heimsótti lögreglan elsta stig skólans og ræddi við nemendur um starf sitt, auk þess sem farið var yfir hættur sem tengjast vopnaburði, sérstaklega í ljósi sorglegra atburða á menningarnótt.

Nemendur unnu einnig fjölbreytt verkefni tengd kærleikanum í hverjum bekk. Þeir bjuggu til kærleiksóróa, tóku þátt í leiknum Nonni Næs og unnu hugarkort um kærleikann. Vikunni lauk með hádegisdiskó og litadegi þar sem nemendur klæddust rauðu og bleiku til heiðurs Bryndísar Klöru, þar sem rauður táknar kærleikann.

Á lokadegi kærleiksdaganna söfnuðust allir nemendur saman á frjálsíþróttavellinum og bjuggu til manngert listaverk sem sýndi frábæra samstöðu. Að auki unnu nemendur að sameiginlegu listaverki undir yfirskriftinni: „Með kærleikann að vopni sigrumst við á ofbeldi og hatri.“

Nýjar fréttir