-2.1 C
Selfoss

„Það er hægt að sjá grín í öllu“

Vinsælast

Theodóra Guðnadóttir er 26 ára Selfyssingur búsett í Reykjavík. Undanfarin ár hefur hún verið að fikta við uppistand við góðan orðstír og hefur áhuga á öllu sem viðkemur leikhúsi.

Á ættir að rekja víðsvegar um Suðurland

Theodóra býr um þessar mundir í Reykjavík en er frá Selfossi. Foreldrar hennar eru Dýrfinna Sigurjónsdóttir og Guðni Sveinn Theodórsson. Pabbi hennar er úr Fljótshlíðinni og ólst upp að hluta til þar og svo á Hvolsvelli, „eða nafla alheimsins eins og Hvolhreppingar kalla það,“ segir Theodóra. Mamma hennar er fædd og uppalin í Skógum undir Eyjafjöllunum. „Mér þykir óskaplega vænt um Fljótshlíðina og Eyjafjöllin.“ Hún á tvö yngri systkin, Elísabetu Auði Guðnadóttur, sem nemur í arkitektúr í LHÍ, og Benjamín Guðnason sem er nýbakaður kokkur. „Svo má ekki gleyma kettinum Cathildi sem er dóttir mömmu en ekki pabba,“ tekur Theodóra fram.

Theodóra er vaktstjóri miðasölu Borgarleikhússins og er búin að vera það síðastliðin fimm ár. „Ég elska leikhúsið, að selja fólki upplifun, og ég er spennt fyrir nýju og gríðarlega metnaðarfullu leikári. Áhugamálin mín eru innan veggja leikhússins, uppistand, handritaskrif, leikstjórn og allt sem tengist leikhúsum.“

Theodóra ásamt systkinum sínum.
Ljósmynd: Theodóra Guðnadóttir.

Tók þátt í fyndnasta háskólanemanum

Aðspurð að því hvað fékk Theodóru til þess að leggja fyrir sig uppistand segist hún alltaf hafa haft gaman af því að halda ræður í veislum, afmælum og öðrum viðburðum hjá vinum og fjölskyldu. „Þetta hófst af alvöru þegar ég tók þátt í fyndnasta háskólanemanum árið 2021. Þar landaði ég silfrinu.“ Hún stundar nám í grunnskólakennslufræðum við Háskóla Íslands. „Vinir mínir voru að hvetja mig í að taka þátt í þessari keppni og ég sé alls ekki eftir því, þetta var mjög skemmtilegt. Ég hreppti annað sæti það árið en það var skrýtið að taka þátt því þetta var í miðju Covid og ég var bara með dómarana fyrir framan mig og myndavél sem var sýnd í beinu streymi á Facebook. Þannig að fyrsta giggið mitt var öðruvísi,“ segir Theodóra.

Vinir Theodóru hvöttu hana til þess að taka þátt í fyndnasta háskólanemanum. Ljósmynd: Theodóra Guðnadóttir.

Tvær uppseldar sýningar í Borgarleikhúsinu

Theodóra var með tvær uppistandssýningar á litla sviðinu í Borgarleikhúsinu í maí og júní sl. Þær seldust báðar upp og gekk mjög vel. „Svo er ég búin að vera úti um allt land í sumar, meðal annars í Vallaskóla núna í ágúst þar sem ég fór með uppistand fyrir gamla kennara mína og stuðningsfulltrúa, örugglega mest stressandi gigg hingað til en ótrúlega gaman og vel heppnað.“

Aðspurð hvaðan hún fær innblástur fyrir efnið sitt segist hún aðallega fá hann úr daglegu lífi. „Það er hægt að sjá grín í öllu. Svo er ótrúlega fyndið fólk í kringum mig, bæði vinir og fjölskylda, en þau allra fyndnustu eru systkini mín.“

Hún segir tilfinninguna að fara með uppistand vera ólýsanlega. „Dópamínið er alveg í botni. Gleði, þakklæti, spenna og stemning allt í bland!“ Allir í kringum hana eru mjög hvetjandi og hjálpsamir.

Fleiri sýningar væntanlegar

Theodóra segir að fleiri sýningar séu væntanlegar í náinni framtíð. „Um þessar mundir er ég upptekin í öðrum verkefnum en á sama tíma er ég að safna efni og kokka upp nýtt uppistand.“ Hún segist vilja leggja þetta fyrir sig í framtíðinni og að hún haldi þessu ótrauð áfram á meðan hún og aðrir hafi gaman að þessu.

Það er nóg á döfinni hjá Theodóru þessa dagana. „Það er nýtt leikár að fara af stað hjá okkur í Borgarleikhúsinu svo það er nóg að gera í vinnunni. Ég er líka formaður starfsmannafélags Borgarleikhússins svo ég verð að fara að skipuleggja skemmtun fyrir fólkið sem skemmtir landanum allar helgar ársins. Síðan er ég að fara á þriðja og síðasta árið mitt í B.Ed.-námi og nóg að gera. Ég var einnig að taka að mér að vera með umsjón og leikstýra Skrekk hjá Sæmundarskóla í Reykjavík. Ég hef sumsé ekki undan neinu að kvarta, allra síst verkefnaskorti og það er spennandi haust framundan.“

Nýjar fréttir