-1.6 C
Selfoss

Bætti eigið Íslandsmet á HM unglinga í kraftlyftingum

Vinsælast

Selfyssingurinn Kolbrún Katla Jónsdóttir tók á dögunum þátt á HM unglinga í kraftlyftingum í Möltu. Hún keppti í +84 kg flokki kvenna junior, en hann var mjög sterkur og þéttur í ár og samkeppnin því mikil.

Í kraftlyftingum er keppt í hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu. Samanlagður árangur greinanna er kallaður „total“. Hægt er að fá verðlaun fyrir hverja grein fyrir sig og fyrir hæstu samanlögðu þyngd (total).

Kolbrún Katla tók seríuna 195-207.5-217.5 kíló í hnébeygju og bætti eigið Íslandsmet um 2 kíló í síðustu beygjunni, en það er bæði met í unglinga- og fullorðinsflokki. Í bekkpressu tók hún seríuna 85-90-92,5 og bætti sinn persónulega árangur um 2,5 kíló. Í réttstöðulyftu tók hún seríuna 180-190 og reyndi við 197,5 kíló sem fóru ekki upp. Heildarþyngd var þá 500 kíló, sem er 0,5 kílóum frá hennar besta. Hún endaði í 4. sæti í hnébeygju og í 6. sæti í heildina.

Kolbrún er mjög sátt með árangurinn. „Ég er mjög ánægð með þetta mót og minn árangur. Eftir rétt rúman mánuð keppi ég svo á EM unglinga sem haldið er í Tékklandi. Þar verður samkeppnin aftur jöfn og ég er mjög spennt að sjá hvernig það fer. Þetta er síðasta árið mitt sem unglingur þannig planið er að skilja ekkert eftir á pallinum og vonandi bæta minn persónulega árangur.“

RIG 2024.
Ljósmynd: Kolbrún Katla Jónsdóttir.

Nýjar fréttir