2.8 C
Selfoss

Sjö leikmenn ganga til liðs við kvennalið Selfoss

Vinsælast

Körfuknattleiksfélag Selfoss skrifaði í vikunni undir samninga við sjö leikmenn sem koma til með að leika í nýstofnuðum meistaraflokki kvenna. Liðið spilar í 1. deild í vetur og er fyrsti heimaleikur liðsins í Vallaskóla gegn ÍR 26. október.

Þær sem skrifuðu undir voru í stafrófsröð: Aðalbjörg Sara Olsen Bjarnadóttir, Diljá Salka Ólafsdóttir, Elín Þórdís Pálsdóttir, Eva Margrét Þráinsdóttir, Eva Rún Dagsdóttir, Kolbrún Katla Halldórsdóttir, Perla María Karlsdóttir. Eva Rún söðlar um og kemur til liðsins frá Tindastól og þá eru Aðalbjörg Sara, Diljá, Elín og Eva Margrét afrakstur yngri flokka starfsins á Selfossi. Perla María dregur skóna fram á ný, en hún spilaði síðast með Ármanni og að lokum kemur Kolbrún Katla til liðs við okkur frá ÍR.

Eftir undirritun er komin mynd á liðið, auk þeirra sem nú skrifuðu undir skrifuðu þær Anna Katrín Víðisdóttir og Valdís Una Guðmannsdóttir undir í lok sumars. Davíð Ásgrímsson þjálfari liðsins segir að “liðið sé skipað ungum og efnilegum leikmönnum sem hafi margar hverjar lagt grunninn að stofnun liðsins og því sé mikil spenna í gangi fyrir komandi tímabili”. Undirskriftin markar tímamót í sögu félagsins þar sem meirihluti leikmanna meistaraflokks kvenna í dag hafa slitið skónum á parketinu á Selfossi frá barnsaldri. Þetta er afrakstur ört stækkandi körfuboltastarfs á Selfossi og er í takt við markmið félagsins. Guðbjörg Bergsveinsdóttir formaður félagsins segir: „Það er markmið félagsins að gefa ungum og efnilegum iðkendum tækifæri að spila fyrir sitt heimalið í meistaraflokkum félagsins og t.d. æfði og spilaði hópur ungra uppalinna leikmanna með meistaraflokki karla síðasta vetur. Félagið ákvað að endurvekja meistaraflokk kvenna nú í vor og mun ungt og efnilegt lið keppa í 1. deildinni í vetur. Selfoss karfa hefur ekki átt kvennalið í tíu ár og því talsvert átak að koma því í gang. Liðið byggir að langstærstu leyti á leikmönnum undir tvítugu af svæðinu en iðkendur allt niður í 13 ára hafa fengið að taka þátt í æfingum í sumar. Lykilástæður þess að farið var af stað með meistaraflokk kvenna er að yngri iðkendur okkar hafi fyrirmyndir í sinni grein, það sé spennandi að hafa eitthvað að stefna að í sinni heimabyggð og hvetja enn fleiri stelpur til að koma í körfu.” Liðið hefur keppni á útileik á móti Ármanni þann 4. október nk.

Nýjar fréttir