Rafleiðni í Skálm hefur farið hækkandi frá því seinnipartinn 7. september og mælist nú um 309 µS/cm, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Á sama tíma hefur vatnshæð árinnar hækkað örlítið, sem bendir til þess að lítið jökulhlaup sé hafið.
Veðurstofan hvetur fólk til að sýna aðgát við upptök árinnar og nærri árfarveginum, þar sem gasmengun gæti verið til staðar. Engar tilkynningar um brennisteinslykt hafa þó borist Veðurstofunni hingað til.
Enginn hlaupórói hefur mælst á jarðskjálftamælum við Mýrdalsjökul, ólíkt því sem gerðist við jökulhlaup í Skálm þann 27. júlí. Þó er vatnshæðin enn undir viðvörunarmörkum og ekki er talið að innviðir séu í hættu að svo stöddu. Veðurstofan útilokar ekki að rennsli og vatnshæð muni aukast.
Náttúruvárvakt Veðurstofu Íslands mun áfram fylgjast grannt með þróun mála.