2.8 C
Selfoss

Öldungaráðið heimsótti gamla Mjólkurbúið

Vinsælast

„Öldungaráðið” á Selfossi fór í heimsókn á dögunum í Mjólkursamsöluna sem áður var Mjólkurbú Flóamanna. Ágúst Þór Jónsson rekstrarstjóri og hans menn tóku á móti gestunum með nýju skyri, rjóma og kræsingum. Töluðu þeir um að framundan væri viðbygging við stöðina, 1200 fermetrar, sem mun liggja að Austurveginum. Þetta húsnæði mun taka við Ísey-skyrinu, en allt skyr bæði fyrir innanlandsmarkað og útlönd er framleitt á Selfossi. Mjólkursamsalan hefur dafnað vel í faðmi Mjólkurbús Flóamanna. Þar starfa 112 starfsmenn auk 18 bílstjóra sem sækja mjólkina. Í gegnum stöðina fara 74 milljónir lítra af mjólk eða um helmingur allrar framleiðslunnar á landinu. MS er með framleiðslustöðvar á Selfossi, Egilsstöðum, Akureyri og Búðardal. KS eða Kaupfélag Skagfirðinga á 20% í Mjólkursamsölunni og rekur mjólkurbú á Sauðárkróki. Auðhumla, samvinnufélag kúabænda, á 80% í MS. Svo er dreifingar- og stjórnstöð MS á Bitruhálsi í Reykjavík. „Það voru hamingjusamir og vel upplýstir menn sem þökkuðu morgunstund í MS,“ segir í tilkynningu frá Guðna Ágústssyni, meðlimi öldungaráðsins.

Ágúst Þór Jónsson og Guðni Ágústsson standa við ræðustólinn sem Sigga á Grund skar út og Hilmar Björnsson hannaði.
Ljósmynd: Guðni Ágústsson.

Nýjar fréttir