8.4 C
Selfoss

Skeiða- og Gnúpverjahreppur kærir leyfi vegna Búrfellslundar

Vinsælast

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti í gær að fela oddvita í samráði við lögmenn að kæra virkjunarleyfið sem Orkustofnun hefur gefið út fyrir Búrfellslund til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Tillagan var samþykkt með fjórum atkvæðum en einn sat hjá.

​Í fundargerð kemur fram að Þjórsár- og Tungnaársvæðið sé mikilvægasta orkuvinnslusvæði Íslands. Uppsett afl virkjana á svæðinu er um 1.050 MW. Þar af er næstum helmingurinn, eða 505 MW af uppsettu afli, staðsett í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu eru mestu virkjanaframkvæmdir Íslands fyrirhugaðar á komandi árum.

„Öll þessi virkjunaráform, sem stefnt er á að hefjist á komandi mánuðum, ásamt fleiri virkjunarkostum á komandi árum, skapa gríðarlega neikvætt inngrip í náttúru svæðisins, enn meiri en nú þegar er orðið. Áhrif virkjunarkostanna á nærumhverfi þeirra verða varanleg, hvort sem litið verður til náttúru, efnahagslegs eða félagslegs nærumhverfis. Við núverandi lagaumgjörð liggur fyrir að allar þessar virkjanir sem fyrirhugaðar eru á svæðinu, munu ekki skila neinum tekjum til Skeiða- og Gnúpverjahrepps og situr því sveitarfélagið og nærumhverfi þess uppi með öll neikvæðu umhverfisáhrifin og veikara samfélag. Slík staða er óásættanleg,“ segir í fundargerð sveitastjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

Einnig er tekið fram í fundargerð að stjórnvöld á Íslandi hafi boðað stefnumörkun um vindorkuver á landinu þar sem fram kemur að ekki eigi að byggja vindorkuver innan miðhálendislínunnar. Staðsetning Búrfellslundar stríðir gegn þessari stefnumörkun þar sem hann er innan miðhálendislínunnar, við hliðina á Þjórsárdal þar sem er stærsta friðlýsing menningarminja, náttúru- og menningarlandslags á Íslandi. Vindorkuverið er jafnframt í nágrenni við gríðarlega uppbyggingu í ferðaþjónustu í Þjórsárdal.

Nýjar fréttir