8.4 C
Selfoss

Listasafn Árnesinga opnar nýjar sýningar

Vinsælast

Listasafn Árnesinga opnar fjórar nýjar sýningar 14. september klukkan 14. Safnið býður upp á drykki og Matkráin veitingahús í Hveragerði býður upp á snittur fyrir þau sem mæta tímanlega. Sýningarnar eru fjölbreytilegar en allar snúast þær á einhvern hátt um stöðu mannsins í heiminum, hugsanir um náttúru og áhrif mannsins á náttúruna. Safnið er ókeypis og opið alla daga nema mánudaga á veturna.

Fjórir salir með mismunandi sýningar

Í sal 1 opnar sýningin Hljóðróf, sem er ný innsetning eftir Sigurð Guðjónsson.

Þar er fengist við spurningar um hvað það er sem er sýnilegt, eða skynjanlegt, sem hluti af því hvernig við tökum þátt í heiminum, hvernig við bregðumst við umhverfi okkar og hvaða gildi við gefum ólíkum þáttum í þeirri mynd sem við gerum okkur af heiminum.

Í sal 2 opnar einkasýning Þórdísar Jóhannesdóttur Millibil

Þrátt fyrir að Þórdís Jóhannesdóttir hafi lengi notað ljósmyndina sem sinn miðil telst hún seint til hefðbundinna ljósmyndara. Ljósmyndir eru grunnurinn sem hún svo brýtur upp á, teygir og togar bæði í yfirfærðri og bókstaflegri merkingu orðanna. Þórdís sækir myndefni sitt í hversdagsleikann. Efnistökin eru form og litafletir sem hún fangar á ferðum sínum, ýmist í myndlist annarra, arkitektúr eða úti í náttúrunni.

Í sal 3 opnar samsýningin Lífrænar Hringrásir og teygir sýningin sig yfir í anddyri safnsins, á lóð safnsins, í Hveragarðinn, að Varmá og upp í Kambana.

Listamenn eru:

Anna Líndal (IS), Elísabet Jökulsdóttir & Matthías Rúnar Sigurðsson, (IS), Freyja Þórsdóttir (IS), Heather Barnett (UK), Herwig Turk (AT), Ilana Halperin (US/UK), Jennifer Helia DeFelice (US/CZ), Magnea Magnúsdóttir (IS), Patrick Bergeron (CA), Pétur Thomsen (IS), Skade Henriksen (NO), Þorgerður Ólafsdóttir (IS)

Salur 4 opnar sýninguna Volvox (Kyllir).

Lista- og vísindamennirnir Thomasine Giesecke, Jean-Marc Chomaz, Bruno Palpant og Tom Georgel, hljóðlistamaður, koma frá París með þessa spennandi rannsóknarsýningu.

Volvox (Kyllir) er samvinnuverkefni listafólks og vísindamanna frá Hydrodynamics Laboratory í Ecole Polytechnique (LadHyX), Light, Matter and Interfaces rannsóknarstofunni (LuMIn), og Institute of Physical Chemistry í Paris-Saclay háskólanum og Institut Polytechnique de Paris og innblásið af samnefndum, örsmáum þörungum.

Nýjar fréttir