8.4 C
Selfoss

Fyrsta skóflustungan að nýju húsnæði á 60 ára afmælinu

Vinsælast

Verslunin Karl úrsmiður á Selfossi fagnar 60 ára afmæli í dag, 5. september. Var því fagnað með blöðrum og veitingum ásamt tilboðum og afslætti í versluninni. Þá eru einnig önnur tímamót hjá versluninni þar sem framkvæmdir hófust í morgun við að grafa fyrir nýbyggingu við Austurveg 11 þar sem verslun Karls úrsmiðs stóð í 58 ár, en hún stendur núna á Eyravegi 38 á Selfossi.

Fyrirtækið er með þeim elstu á Selfossi.
Ljósmynd: Karl úrsmiður.
Fyrsta skóflustungan að nýju húsnæði.
Ljósmynd: Karl úrsmiður.

Bogi Karlsson, sonur Karls R. Guðmundssonar stofnanda fyrirtækisins, segir í samtali við Dfs.is að pabbi hans myndi aldrei trúa því að það yrði svona gamalt. „Það var ekki spáð vel fyrir honum þegar hann kom hingað fyrst og það voru hér 1900 íbúar.“ Upphafið að rekstrinum byrjaði þannig að kaupfélagið á Selfossi tók á móti úrum og Karl sá um að gera við þau, en á sama tíma var hann í fullri vinnu í Reykjavík. Eftirspurnin eftir úraviðgerðum var seinna orðin það mikil að hann réði ekki við bæði störf. Staðan var sú að hann þurfti annað hvort að hætta þessum viðgerðum eða hætta vinnunni í Reykjavík. Hann valdi seinni kostinn og opnaði svo eigin verslun á Selfossi sem stendur enn í dag.

Upphaflegt húsnæði verslunarinnar.
Ljósmynd: Karl úrsmiður.

Karl úrsmiður er eitt af elstu fyrirtækjunum á Selfossi. Þess má geta að það var með þeim fyrstu til þess að auglýsa í Dagskránni fyrir 60 árum.

Nýja húsnæðið verður á fjórum hæðum þar sem verslunin verður á neðstu hæðinni og hinar þrjár verða íbúðarhúsnæði. Stefnt er að því að það verði tilbúið árið 2026.

Teikning af nýja húsnæðinu.
Mynd: Karl úrsmiður.

Nýjar fréttir