8.4 C
Selfoss

Dagný Lísa leggur skóna á hilluna

Vinsælast

Hvergerðingurinn og landsliðskonan Dagný Lísa Davíðsdóttir hefur ákveðið að leggja körfuboltaskóna á hilluna.

Dagný á að baki farsælan feril í körfubolta. Hún byrjaði ung í íþróttinni og var aðeins 13 ára þegar hún byrjaði að spila fyrir meistaraflokk Hamars. Árið 2014 fór hún til Bandaríkjanna og spilaði þar fyrir Westtown School í Pennsylvaníu. Hún fór svo í háskólaboltann árið 2016 og spilaði þar fyrst með Niagara Purple Eagles og seinna með Wyoming Cowgirls. Hún varð Mountain West Conference meistari með Wyoming Cowgirls árið 2021, sem var fyrsti titillinn í sögu skólans.

Þegar hún kom aftur til Íslands spilaði hún með Hamri/Þór og fór þaðan í Fjölni, þar sem hún varð deildarmeistari árið 2022, en það var fyrsti stóri titillinn í sögu félagsins. Hún kláraði svo ferilinn síðasta tímabil með Grindavík.

Hún var valin besti leikmaður efstu deildar kvenna 2022 ásamt því að vera valin íþróttamaður Ölfuss sama ár. Hefur hún líka verið hluti af landsliðinu síðustu ár.

Dagný á farsælan feril að baki í körfubolta.
Ljósmynd: Facebook/Dagný Lísa Davíðsdóttir.

Í samtali við Dagnýju segist hún ekki geta sinnt körfunni lengur eins og hún hefði viljað. „Ég var að byrja í nýrri vinnu í sumar og hefði viljað taka sumarið á fullu til þess að undirbúa fyrir tímabilið en það var ekki hægt. Ég sé ekki fram á að ná að sinna körfunni almennilega í vetur eins og ég myndi vilja og svo vil ég líka eiga smá frítíma.“

Nýjar fréttir