8.4 C
Selfoss

Haustgildi fer fram um helgina

Vinsælast

Haustgildi uppskeruhátíð fer fram á Stokkseyri dagana 7.–8. september.

Haustgildi – menning er matarkista – er haldin á Stokkseyri fyrstu helgina í september ár hvert. Haustgildi er uppskeruhátíð í víðri merkingu sem fagnar hausti og uppskeru með það að markmiði að tvinna saman menningarviðburði og markað í fjölskylduvæna upplifun við ströndina.

Í ár verður lögð sérstök áhersla á rithöfunda og bókamarkaði þar sem haldið er upp á tíu ára afmæli Bókabæjanna austanfjalls. Bókabæirnir austanfjalls urðu til fyrir elju og atorku einstaklinga af Suðurlandi. Félagið á sér alþjóðlega fyrirmynd og er hægt að rekja upphafið til velska bæjarins Hay-on-Wye sem er fyrsti bókabærinn, stofnaður 1961 af heiðursmanninum Richard Booths.

Richard stofnaði til bókabæjanna þegar bærinn hans var í niðursveiflu með því að fara til Bandaríkjanna og kom hann til baka með skipsfarm af bókum. Íbúar máttu nota bækurnar til að stofna bóksölur sem þau og gerðu og fljótlega voru opnaðar fjölmargar bóksölur í bænum. Sumar þeirra starfa enn og þar er líka haldin árleg bókmenntahátíð.

Það er svo frekar af Richard að segja að hann stofnaði konungsdæmi eftir að hafa átt í erjum við bæjaryfirvöld. Sem konungur af Hay-on-Wye kom hann til Íslands og var viðstaddur stofnun Bókabæjanna austanfjalls.

Bjarni Harðarson, sem er einn af upphafsmönnum Bókabæjanna austanfjalls, mun fara yfir sögu Bókabæjanna á undan upplestri Shaun Bythell á Svartakletti, í menningarverstöðinni Hólmaröst laugardaginn 7. september kl. 15.

Meðal viðburða eru upplestrar, ritsmiðjur, tónleikar og ýmsar sýningar. Gestir geta notið fjölbreyttra menningarviðburða og fengið góðan mat og drykk.

Allar upplýsingar um dagskrá og viðburði er að finna á haustgildi.is

Nýjar fréttir