6.7 C
Selfoss

Arnar Þór setti HSK met í maraþoni og Ingvar með í fertugasta sinn

Vinsælast

Frábær aðsókn var í 40 ára afmælishlaup Reykjavíkurmaraþons sem haldið var sl. laugardag í björtu og fallegu veðri. Skráðir þátttakendur voru 14.646 sem eru rúmlega 3000 fleiri en á síðasta ári.

Fjölmargir Sunnlendingar tóku þátt í hlaupinu. Þeirra á meðal var Skeiðamaðurinn Ingvar Garðarsson sem búsettur er á Selfossi. Hann hefur tekið þátt í þessum viðburði árlega í þau 40 ár sem hlaupið hefur verið haldið. Aðeins tveir hlauparar hafa alltaf tekið þátt í hlaupinu. Hinn er Jón Guðmundsson og hlupu þeir alla leiðina saman í tilefni þessara tímamóta.

Ingvar og Jón komu saman í mark í afmælishlaupinu.
Ljósmynd: Ingvar Garðarsson.

Arnar Þór Ingólfsson úr Þór Þorlákshöfn setti nýtt HSK met í maraþoni í karlaflokki, en hann hljóp á 2:56:52 klst í Reykjavíkurmaraþoninu. Sigursveinn Sigurðsson Selfossi átti gamla metið, en hann hljóp á 2:59:14 klst í Kaupmannahöfn í vor.

Arnar að loknu methlaupinu. Ljósmynd: Arnar Þór Ingólfsson.

Árangur Arnars er einnig HSK met í flokki 30-34 ára, en metið í þeim flokki átti Grétar Snorrason og var 3:17:43 klst., sett árið 2013. Annað HSK met í eldri aldursflokkum var bætt á laugardaginn. Sigurður Júlíusson frá Selfossi bætti metið í hálfmaraþoni í flokki 40-44 ára. Hann kom í mark á 1:25:12 og bætti þar með 23 ára gamalt met Ingvars Garðarssonar um 59 sekúndur.

Nýjar fréttir