6.7 C
Selfoss

Kjötsúpuhátíð um helgina

Vinsælast

Dagana 29. ágúst til 1. september fer fram bæjarhátíðin Kjötsúpuhátíð í Rangárþingi eystra.

Hátíðin er sneysafull af atriðum fyrir alla aldurshópa og frítt er inn á alla viðburði helgarinnar.

Þriðjudaginn 27. ágúst ætlar Stóra-Mörk 1 að hita upp fyrir hátíðina með því að bjóða í kjötsúpu milli 18 og 20 en Stóra-Mörk 1 var afurðahæsta kúabúið árið 2023.

Á fimmtudeginum 29. ágúst verður silent disco fyrir yngri kynslóðina, gítarleikarinn og gleðigjafinn Andri Ívars ásamt Stefaníu Svavars verða með uppistandstónleika í stóra tjaldinu um kvöldið.

Á föstudeginum verður uppskeruhátíð sumarlestrar á vegum Héraðsbókasafns Rangæinga, SS verður með grillkynningu við Búvörubúð SS, BMX Bros verða með námskeið og sýningu, sumarkjóla- og búbbluhlaup, Sveitabúðin Una hitar upp fyrir kjötsúpurölt með harmonikkuleik, vínsmakki o.fl. Kl. 19 verður kjötsúpuröltið vinsæla þar sem bæjarbúar bjóða upp á súpur í heimahúsum.

Laugardagurinn 31. ágúst verður pakkaður af viðburðum frá morgni til kvölds. Dagskráin hefst á Naglahlaupinu sem hefst við Midgard. SS býður upp á kjötsúpu á miðbæjartúninu, UK tívolí mætir á svæðið, í Hvolnum verður bæði flóamarkaður á vegum kvenfélagsins Einingar og Litla skvísubúðin verður þar með sínar vörur. Verslunin Hjá Árný verður með flóamarkað og ýmis tilboð, 10. bekkur Hvolsskóla verður með markaðsbása, verðlaun verða veitt s.s. skreytingaverðlaun, íþróttamaður ársins, sveitalistamaður Rangárþings eystra o.fl.

Kl. 14 verður svo fjölskylduskemmtun með Önnu Fanneyju sem sigraði Idol, Prettyboytjokko, Sirkus Íslands, Íþróttaálfinum og Solla stirðu, hoppukastalar, loftboltar o.fl.

KL 21 mun Guðrún Árný stýra brekkusöng í stóra tjaldinu og verður sérstakur gestur Helgi Hermansson úr Logum.

KL 22:45 verður glæsileg flugeldasýning og ball með Stuðlabandinu í kjölfarið. Þar verður sérstakur gestur Ómar Úlfur Eyþórsson fjallabróðir og Rangæingur.

Sunnudaginn 1. september mun Ísólfur Gylfi Pálmason ásamt Lárusi Bragasyni leiða menningargöngu um Hvolsvöll. Krakkarnir geta skemmt sér í íþróttahúsinu í ljósabolta (glowbal soccer) þar sem spilað er í myrkri með sjálflýsandi bolta.

Eins og sjá má mun engum leiðast þessa helgi og allir bæði sáttir og sáttir. Frítt er inn á alla viðburði hátíðarinnar og má finna allar nánari upplýsingar um dagskrá og viðburði á Facebook síðu hátíðarinnar á https://www.facebook.com/kjotsupuhatid.

Fjölbreytt dagskrá verður alla helgina.

Nýjar fréttir