1.7 C
Selfoss

Rangárþing ytra mun bera fjárhagslegt tjón af Búrfellslundi í núverandi lagaumgjörð

Haraldur Þór Jónsson, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

Fréttatilkynning v/útgáfu Orkustofnunar á virkjanaleyfi fyrir Búrfellslund.

Síðasta mánudag gaf Orkustofnun út virkjanaleyfi fyrir Búrfellslundi. Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps var eini aðilinn sem lagði formlega fram athugasemdir við fyrirhugað virkjanaleyfi en Orkustofnun tók ekki tillit til þeirra athugasemda.

Forsenda fyrir staðsetningu Búrfellslundar eru innviðir raforkukerfisins sem eru staðsettir í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Í umhverfismati Búrfellslundar kemur skýrt fram að framkvæmdasvæði og áhrifasvæði Búrfellslundar sé í báðum sveitarfélögum. Þrátt fyrir það hefur ekki verið sótt um að setja Búrfellslund í skipulag Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Óumdeilt er að áhrifasvæði Búrfellslundar er í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, á hálendi Íslands við hliðina á þjóðlendunni í Þjórsárdal þar sem mikil uppbygging í ferðaþjónustu á sér stað.

Stjórnvöld hafa ekki klárað stefnumörkun um uppbyggingu vindorkuvera á Íslandi. Einnig hafa stjórnvöld ekki klárað lagaumgjörð utan um komandi uppbyggingu vindorkuvera. Því til viðbótar hafa stjórnvöld ekki lagt fram breytingar á skattaumgjörð orkuvinnslu eins og ítrekað hefur verið boðað af forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar.

Sveitarstjórn Rangárþings ytra stendur frammi fyrir þeirri staðreynd að veiti hún framkvæmdaleyfi fyrir Búrfellslundi, þá verður sveitarfélagið fyrir beinu fjárhagslegu tjóni þar sem tekjur af fasteignagjöldum Búrfellslundar orsaka skerðingu frá framlögum jöfnunarsjóðs sem nemur hærri upphæð. Ástæðan fyrir því er að um 95% af orkumannvirkjum eru undanþegin lögboðnum tekjustofni sveitarfélaga til greiðslu fasteignagjalda og gerir það að verkum að sveitarfélögin tapa á orkumannvirkjum.

Yrðu tekjur Rangárþings ytra af fasteignagjöldum Búrfellslundar 50 milljónir á ári, verða árlegar skerðingar jöfnunarsjóðs til Rangárþings ytra um 53,5 milljónir miðað við árið 2023 og árlegt fjárhagslegt tap Rangárþings ytra yrði 3,5 milljónir. Það þýðir 87,5 milljóna tap Rangárþings ytra á 25 ára líftíma Búrfellslundar.

Yrðu tekjur Rangárþings ytra af fasteignagjöldum Búrfellslundar 100 milljónir á ári, verða árlegar skerðingar jöfnunarsjóðs til Rangárþings ytra um 107 milljónir miðað við árið 2023 og árlegt fjárhagslegt tap Rangárþings ytra yrði 7 milljónir. Það þýðir 175 milljóna tap Rangárþings ytra á 25 ára líftíma Búrfellslundar.

Stutt er í að Orkustofnun veiti virkjanaleyfi fyrir Hvammsvirkjun. Sama gerist með þá framkvæmd hjá Rangárþingi ytra. Auknar tekjur af fasteignagjöldum Hvammsvirkjunar til Rangárþings ytra munu auka skerðingar frá Jöfnunarsjóði og tap Rangárþings Ytra eykst enn frekar.

Sveitarfélögin á áhrifasvæði Búrfellslundar, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Rangárþing Ytra og Ásahreppur munu sitja uppi með öll neikvæðu umhverfisáhrifin af Búrfellslundi. Nærsamfélagið í sveitarfélögunum situr uppi með fjárhagslega tapið. Á rekstrartíma Búrfellslundar verða erlendir sérfræðingar sem munu reka Búrfellslund og mun hann því ekki skila neinum staðbundnum störfum í nærumhverfinu og þar af leiðandi engum útsvarstekjum í nærumhverfinu.

Öll orkan sem Búrfellslundur framleiðir verður flutt út af svæðinu og því mun ávinningurinn aðeins skila sér til þeirra sem nota orkuna.

Það eru fjölmargir ónýttir mikilvægir orkukostir á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Hvammsvirkjun, Holtavirkjun, Urriðafossvirkjun, Kjalölduveita, Skrokkölduveita og Hrútmúlavirkjun. Núverandi lagaumgjörð sem sveitarfélögunum er boðið upp á gengur ekki upp lengur. Uppbygging á vindorkuverum þarf að vinna í samstarfi við sveitarfélögin á áhrifasvæði vindorkuveranna en ekki einungis þar sem vindmyllurnar fara ofan í jörðu. Forsenda frekari orkuvinnslu er að klára stefnumörkun í samvinnu við sveitarfélögin og setja í lög nýja skattalega umgjörð sem tryggir nærumhverfinu efnahagslegan ávinning svo þau geti byggt um samfélög sem geti vaxið til framtíðar á forsendum verðmætasköpunar og lífsgæða.

Haraldur Þór Jónsson,
oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps

Nýjar fréttir