8.4 C
Selfoss

130 keppendur frá HSK á Unglingalandsmóti

Vinsælast

130 keppendur af sambandssvæði HSK tóku þátt í keppni á Unglingalandsmóti UMFÍ sem haldið var í Borgarnesi um verslunarmannahelgina. Keppendur HSK tóku þátt í öllum 18 keppnisgreinum mótsins og unnu til verðlauna í þeim öllum sem er frábær árangur.

Það var glæsilegur HSK hópurinn sem gekk inn á völlinn á setningarhátíð mótsins, en allir keppendur sambandsins fengu að gjöf bláa HSK treyju merkta HSK og Arionbanka. Bankinn er aðalstyrktaraðili HSK og samstarfið ein aðalforsenda þess að hægt sé að afhenda treyjuna endurgjaldslaust.

Hér að neðan er getið um unglingalandsmótsmeistara af sambandssvæðinu.

Bogfimi

Þórir Haukur Einarsson sigraði í bogfimi í flokki 11-14 ára. 

Borðtennis

Bergþóra Hauksdóttir vann gullið í flokki 11-14 ára flokki stúlkna og Jón Arnar Ólafsson vann gullið í sama aldursflokki hjá strákunum. 

Frjálsar íþróttir

Andri Már Óskarsson varð unglingalandsmótsmeistari í langstökki í flokki 11 ára stráka og Hilmir Dreki Guðmundsson vann kúluvarp í sama aldursflokki. Andri og Hilmar voru svo í sigursveitinni í 4×100 metra boðhlaupi pilta.

Magnús Tryggvi Birgisson varð meistari í kringlukasti í flokki 13 ára pilta á nýju mótsmeti, kastaði 36,43 metra. Ásta Kristín Ólafsdóttir kastaði spjótinu lengst allra í flokki 13 ára stúlkna.

Anna Metta Óskarsdóttir var sigursæl í 14 ára flokki stúlkna, en hún vann sex greinar, eða 100 metra hlaup, 800 metra hlaup, hástökk, langstökk, kringlukast og hún var í sigursveitinni í 4×100 metra boðhlaupi ásamt Öddu Sóley Sæland og tveimur öðrum stelpum utan héraðs. Adda Sóley vann spjótkastið í þessum sama flokki.

Helga Fjóla Erlendsdóttir vann 100 metra hlaup og langstökk í flokki 15 ára. Arndís Eva Vigfúsdóttir vann kúluvarpið og Bryndís Embla Einarsdóttir kastaði spjótinu lengst í sama aldursflokki.

Helga Fjóla og Arndís Eva unnu auk þess 4×100 boðhlaup í 16-17 ára flokki ásamt Hugrúnu Birnu Hjaltadóttur og einum keppanda utan héraðs. Arna Hrönn Grétarsdóttir vann hástökkið í þessum flokki.

Hjálmar Vilhelm Rúnarsson varð fjórfaldur meistari í flokki 16-17 ára pilta, en hann vann kúluvarp, kringlukast og spjótkast og var í sigursveitinni í 4×100 metra boðhlaupi. Helgi Reynisson, Ívar Ylur Birkisson og Vésteinn Loftsson voru líka í sigursveitinni.

Daníel Breki Elvarsson var meistari í spjótkasti í flokki 18 ára pilta.

Golf

Freyja Ósk Ásgeirsdóttir vann titil í flokki 14-15 ára í golfi.

Grashandbolti

Í flokki 13 – 14 ára stúlkna var það liðið Argentína sem sigraði og þær komu frá HSK og heita Andrea Líf Gylfadóttir, Bára Ingibjörg Leifsdóttir, Sara Rún Auðunsdóttir og Þórey Mjöll Guðmundsdóttir. 

Hjólreiðar

Ronja Sif Magnúsdóttir vann hjólreiðakeppni stúlkna í flokki 11-14 ára.

Knattspyrna

Í fótboltanum mættu félagar af sambandssvæðinu með lið sem þeir kölluðu Diddarnir, en þeir hafa keppt saman á Unglingalandsmóti mörg undanfarin ár. Þeir félagar urðu landsmótsmeistarar í flokki 15-16 ára. Liðið skipuðu þeir Björgvin Hermannsson, Gestur Helgi Snorrason, Gunnar Hrafn Birgisson, Jón Tryggvi Sverrisson, Kristján Breki Jóhannsson, Marteinn Maríus Marinósson, Sigmar Símonarson og Vésteinn Loftsson.

Í flokki 13-14 ára stúlkna mætti lið sem kallaði sig Hvolpasveitin, en liðið var skipað fótboltastelpum af sambandssvæðinu og þær urðu landsmótsmeistarar. Í liðinu voru Anika Líf Sævarsdóttir, Ásdís Erla Helgadóttir, Ásdís Inga Theodórsdóttir, Brynja Sigurþórsdóttir, Diljá Dögg Smáradóttir, Elma Sóley Einarsdóttir, Emilía Rún Óskarsdóttir, Guðmunda Ástmundsdóttir, Rakel Lind Árnadóttir, Rannveig Helga Kjartansdóttir og Rán Ægisdóttir.

Kökuskreytingar

Í liðakeppni í kökuskreytingum í flokki 13-14 ára urðu þær Rán Ægisdóttir og Rakel Lind Árnadóttir unglingalandsmótsmeistarar. Ásdís Eva Magnúsdóttir náði bestum árangri í kökuskreytingum 15-18 ára.

Skák

Sigurður Emil Pálsson sigraði í opnum flokki 11-18 ára í skák.

Sund

Arnór Karlsson vann 50 metra baksund, 50 metra flugsund og 100 metra skriðsund í flokki 15-16 ára pilta.

Upplestur

Halldór Steinar Benjamínsson vann upplesturinn í flokki 13-14 ára.

Hér er ekki getið um þá fjölmörgu sem unnu silfur og brons í ofantöldum greinum. Keppendur frá HSK unnu að auki til verðlauna öllum öðrum greinum mótsins sem voru badminton, glíma, grasblak, hestaíþróttir, körfuknattleikur, pílukast og stafsetning.

Ef lesendur vita um fleiri Unglingalandsmótsmeistara af sambandssvæðinu eru þeir beðnir um að senda upplýsingar á hsk@hsk.is.

Næsta Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina 2025.

 

Myndir:

(HSK á unglingalandsmóti)

Nýjar fréttir