Þúsundir flykktust á Flúðir um verslunarmannahelgina þar sem árlega hátíðin Flúðir um versló fór fram. Að vanda var þar Traktoratorfæran sívinsæla, auk margs annars á borð við furðubátakeppni, tónleika, dansleiki, slátturtraktorarallý og brekkusöng.
Bessi Theodórsson hátíðarstjóri segir í samtali við DFS.is að hátíðin hafi heppnast einstaklega vel og veðrið hafi leikið við viðstadda, ekki hafi rigningardropi fallið á neinum viðburðum utandyra. Aldís Hafsteinsdóttir, sveitarstjóri Hrunamannahrepps tekur í sama streng en minnist þó á að lognið hafi farið heldur hratt yfir.