-6.1 C
Selfoss

Valgerður með fjórða Íslandsmeistaratitil kvenna í röð

Vinsælast

Gnúpverjinn Valgerður Einarsdóttir Hjaltested úr Bogfimifélaginu Boganum í Kópavogi vann Íslandsmeistaratitilinn í sveigboga kvenna á Íslandsmeistaramótinu utandyra í bogfimi (ÍM 24) sem haldið var á Hamranesvelli í Hafnarfirði helgina 20.-21. júlí. Hún sigraði einnig í félagsliðakeppni sveigboga með liðsfélögum sínum, setti Íslandsmet félagsliða og hlaut brons í sveigboga óháð kyni.

Valgerður fylgist með framvindu keppninnar. Ljósmynd: Bogfimisamband Íslands.

Í úrslitaleiknum í sveigboga kvenna keppti Valgerður gegn Marín Anítu Hilmarsdóttur, einnig úr Boganum. Leikurinn var jafn og endaði 5-5 sem leiddi til bráðabana þar sem Valgerður sigraði með skoti í níu á móti átta frá Marín. Þetta var annar Íslandsmeistaratitill hennar í röð utandyra og fjórði titillinn í röð þar sem hún vann bæði innandyra og utandyra 2023 og 2024. Nanna Líf Presburg úr ÍF Akur á Akureyri hlaut bronsið.

Nanna, Valgerður og Marín. Ljósmynd: Bogfimisamband Íslands.

Valgerður tók einnig þátt í keppni óháð kyni og keppti í undanúrslitum í bráðabana gegn liðsfélaga sínum Ragnari Þór Hafsteinssyni. Ragnar vann bráðabanann 5-4 og Valgerður hlaut bronsið með sigri á Georg Elfarssyni úr ÍF Akri á Akureyri 6-2.

Í félagsliðakeppninni sveigboga mættu Valgerður, Ragnar og Marín liði ÍF Akur frá Akureyri og sigruðu örugglega 6-0, sem tryggði þeim Íslandsmeistaratitilinn. Liðið setti einnig Íslandsmet í félagsliðakeppni í undankeppni ÍM 24.

Valgerður náði að verja titil sinn í sveigboga kvenna utandyra, vann Íslandsmeistaratitil félagsliða, setti Íslandsmet félagsliða og hlaut brons í keppni óháð kyni. Veðrið á Íslandsmótinu var einnig sérstaklega gott.

Nýjar fréttir