-0.6 C
Selfoss

Í lok bleika október

Vinsælast

Það eru fá orð sem ná að lýsa þakklæti okkar sem stöndum að Krabbameinsfélagi Árnessýslu eftir einn magnaðast október mánuð sem við höfum upplifað. Hvað eftir annað höfum við fundið einstakan samhug, samstöðu og styrk allstaðar frá í samfélaginu.

Markmið með bleikum október er að efla samfélagið í heild til vitundar um krabbamein hjá konum og er það gert til dæmis með viðburðum sem gefa tækifæri til samveru og samstöðu. Krabbameinsfélag Árnessýslu stóð fyrir Bleika boðinu sem áður hefur verið fjallað um og öllum sem að því komu færðar bestu þakkir. Einnig stóð félagið fyrir bleiku kaffiboði þar sem félagsmönnum og öðrum gestum var boðið uppá bleikar veitingar, ilmandi kaffi og góða samveru. Í október fengum við Helga Hafstein krabbameinslækni í heimsókn til okkar á Eyraveginn þar sem fræðandi og skemmtilegt spjall átti sér stað innan karlahópsins. Félagið tók þátt í bleikum messum bæði í Selfosskirkju, Hveragerðiskirkju og Hrunamannakirkju.

Fjölmörg fyrirtæki í Árborg voru með góðgerðardaga og styrktu félagið fjárhagslega, knattspyrnufélög veittu styrki, vinkonur stóðu fyrir markaði, fjölskyldur og listafólk styrktu félagið, Fjölbrautarskóli Suðurlands var með góðgerðarviku og afhenti félaginu fjármagn sem safnaðist. Góð þátttaka og samstaða myndaðist á bleika deginum þann 20.október og var bleiki liturinn allsráðandi víðsvegar í samfélaginu. VISS vinnu-og hæfingarstöð var í góðri samvinnu við félagið og saumaði bleikar fánaveifum sem Selfossbær var skreyttur með auk þess sem VISS styrkti félagið með ágóða af sölu úr versluninni sinni.

Fjármagni sem félaginu er veitt er varið til starfseminnar og uppbyggingar, til nýrra tækifæra í þjónustu við félagsmenn auk eflingar á þeirri starfsemi sem nú þegar er til staðar.

Okkur þykir einstaklega vænt um hið góða samstarf sem skapast hefur við samfélagið sem býr í Árnessýslu og leggjum okkur áfram fram við að efla starfsemi okkar með það að markmiði að veita stuðning og fræðslu til þeirra sem greinast með krabbamein og fjölskyldna þeirra.

Fyrir hönd Krabbameinsfélag Árnessýslu,
Svanhildur Ólafsdóttir, formaður

Nýjar fréttir