0.2 C
Selfoss

159 HSK met sett á síðasta ári

Vinsælast

Líkt og undanfarin ár voru metaskrár HSK í frjálsíþróttum uppfærðar  í öllum flokkum frá 11 ára aldri, bæði innan- og utanhúss.

159 HSK met voru sett á síðasta ári, sem eru talsvert fleiri met en árið áður þegar 64 met voru slegin.

Keppendur 11 – 22 ára settu 86 met, keppendur í karla- og kvennaflokkum settu sex met og keppendur í öldungaflokkum settu 67 met.  24 þessara meta eru einnig landsmet í viðkomandi flokki.

Bryndís Embla Einarsdóttir Umf. Selfoss, keppandi í 13 ára flokki, setti flest HSK met á árinu í yngri aldursflokkum. Hún setti samtals 25 HSK met í fjórum aldursflokkum og voru átta þeirra meta einnig Íslandsmet í hennar aldursflokki. Álfrún Dilja Kristínardóttir Umf. Selfoss, keppandi í 16-17 ára flokki, kom næst með 12 met og þar af tvö landsmet. Næst komu svo Hjálmar Vilhelm Rúnarsson Selfossi, keppandi í 15 ára flokki og Eydís Arna Birgisdóttir Selfossi keppandi í 16-17 ára flokki, en þau settu bæði átta HSK met á árinu.

Þuríður Ingvarsdóttir Selfossi setti flest HSK met í öldungaflokkum, en hún setti 20 HSK met á árinu í flokki 50 – 54 ára og níu þeirra meta voru einnig landsmet. Guðbjörn Árnason úr Þórsmörk og keppandi í flokki 60-64 ára og Bryndís Eva Óskarsdóttir úr Þjótanda í flokki 35-39 ára voru bæði með átta met. Þá setti Örn Davíðsson Selfossi sex HSK met í sínum aldursflokki sem er 30-34 ára, en hann bætti um betur og setti að auki þrjú HSK met í karlaflokki, eða samtals níu met.

HSK metaskrár, þar sem einnig má sjá yfirlit allra HSK meta sem sett voru á síðasta ári, má nálgast á vef HSK, www.hsk.is.

Fréttin hefur verið uppfærð

Nýjar fréttir