-0.5 C
Selfoss

Hreyfing sem bjargráð við streitu

Vinsælast

Með reglulegri hreyfingu eigum við auðveldara með að takast á við daglegar áskoranir

Í hröðu nútíma samfélagi getur gleymst að huga að heilsunni. Til að viðhalda heilsu er mikilvægt að við hreyfum okkur, mannslíkaminn er gerður fyrir hreyfingu en ekki kyrrsetu. Sýnt hefur verið fram á jákvæð áhrif hreyfingar og skaðleg áhrif hreyfingarleysis á andlega og líkamlega heilsu okkar. Samkvæmt Embætti Landlæknis eiga fullorðnir að hreyfa sig í 30 mínútur daglega og börn og unglingar í 60 mínútur daglega. Hægt er að skipta þeim tíma upp yfir daginn. Regluleg hreyfing getur verið allt frá stuttum göngutúrum, að taka stigann í stað lyftunnar, leggja bílnum lengra í burtu en vanalega og fleira, upp í íþróttaiðkun af mikilli ákefð.

Hver og einn þarf að finna hreyfingu við sitt hæfi hverju sinni, ekkert eitt hentar öllum. Mikilvægast er að hver og einn komi hreyfingu að í sitt dagskipulag/vikuskipulag á raunhæfan hátt, í smáum skrefum þar til hreyfingin tilheyrir lífstílnum. Þegar við eigum erfitt með að hreyfa okkur vegna veikinda eða sjúkdóma þurfum við jafnvel að hreyfa okkur á annan hátt og í styttri tíma en vanalega. Þegar þreytan er mikil vegna til dæmis streitu eða álags öðlumst við gjarnan meiri orku með því að hreyfa okkur í stað þess að leggjast í sófann. Það skiptir því máli að skilja mikilvægi hreyfingar til að geta valið létta hreyfingu í stað þess að leggjast fyrir þegar streita eða álag er mikið.

Við hreyfingu minnkar framleiðsla streituhormóna líkamans og framleiðsla endorfíns (náttúrlegt verkjalyf líkamans) eykst, sem eykur vellíðan okkar og þar af leiðandi öðlumst meiri trú á eigin getu. Hreyfing er ekki einungis mikilvægur partur af lífstílnum okkar heldur getur hreyfingin verið gott bjargráð til að draga úr streitu. Mikilvægt er að ná tökum á streitunni áður en streitan nær tökum á okkur og hreyfing er besta streitulosunin. Hreyfing hefur einnig afar jákvæð áhrif á svefngæði okkar sem auðveldar okkur framkvæmd daglegra athafna og gerir okkur betur í stakk búin að takast á við streituvalda. Mikilvægt er að einblína á þá hreyfingu sem við framkvæmum og njóta hennar hverju sinni.

Þegar hreyfing verður hluti af lífstílnum okkar eykur það vellíðan og orku. Við eigum auðveldara með að framkvæma það sem okkur er mikilvægt og njóta gæðastunda með þeim sem okkur eru mikilvægir. Þar af leiðandi verður auðveldara að takast á við þá streituvalda sem eru í umhverfinu og innra með okkur.

Pistillinn er birtur í tengslum við Forvarnarviku HSU þar sem í ár er lögð áhersla á streitu og lífstíl.

Eydís Helga Garðarsdóttir,
iðjuþjálfi, lyflækningadeild HSU

Random Image

Nýjar fréttir