1.1 C
Selfoss

Hestaíþróttir allt árið á Selfossi

Vinsælast

Nú geta börn og unglingar, sem ekki hafa aðgang að hesti, í fyrsta sinn stundað hestaíþróttir allt árið á Suðurlandi. Hestamannafélagið Sleipnir, býður börnum og unglingum að æfa hestaíþróttir hjá félaginu. Verkefnið hófst í október síðastliðnum en hjá okkur er innifalinn aðgangur að hesti og reiðtygjum, kennsla í reiðmennsku hjá reyndum þjálfurum auk bóklegra og verklegra tíma í umhirðu og flestu sem fylgir því að halda hest.

Stjórn félagsins ákvað í haust að fara í þetta verkefni eftir reynslu af prufuverkefni sem var rekið á vorönn  2021 í samvinnu við Elísabetu Sveinsdóttur en hún rekur úrræðið „Treystu mér“, fyrir börn og unglinga sem eiga í erfiðleikum, þar sem unnið er með hestum á svæði félagsins. 

Félagið tók á leigu húsnæði til rekstursins og hefur notið stuðnings félagsmanna með hross og reiðtygi. Rekstur verkefnisins er á höndum félagsins og höfum við óskað eftir aðkomu sveitarfélaga að rekstrinum með svipuðu sniði og stutt er við önnur íþróttafélög.    

Daglegur rekstur hestaíþrótta hjá Sleipni er í höndum formanns æskulýðsnefndar félagsins, Lindu Björgvinsdóttur en hún nýtur stuðnings Guðbjargar  Önnu Guðbjörnsdóttur, meðlims stjórnar félagsins. Guðbjörg kemur frá hestamannafélaginu Sörla í Hafnarfirði, þar sem bæjarfélagið hefur keypt góða aðstöðu undir hestaíþróttir ætlaðar yngri flokkum barna, unglinga og ungmenna í hestaíþróttum og eru tveir starfsmenn bæjarins þar sem sjá um hesthúsið og skipulagningu starfseminnar í samvinnu við stjórn Sörla. 

Sleipnir leggur áherslu á gott utanumhald um æskulýðsstarfið og státar af einum knapa í hæfileikamótin LH (Landssambands hestamanna) sem er afrekshópur ungra knapa 13-17 ára og tengist landsliðsverkefni sambandsins. 

Sleipnir á jafnframt þrjá knapa í U-21 árs landsliðinu og þrjá í eldri knapa landsliðinu. 

Tveir knapar úr Sleipni voru tilnefndir til verðlauna á uppskeruhátíð Landssambandsins, þau Sigursteinn Sumarliðason sem skeiðknapi ársins og Gyða Sveinbjörg Kristinsdóttir sem efnilegasti knapi ársins. Marga afreksknapa mætti telja upp, úr röðum félagsmanna, sem lýsir best miklum áhuga á hestaíþróttum á svæðinu.   

Sleipnir vill vinna að framgangi hestaíþróttarinnar og hlúa sérstaklega að barna og unglingaflokkum með því að bjóða upp á aðstöðu og utanumhald með það að  markmiði að einfalda aðgengi að íþróttinni.  

Við bjóðum áhugasöm börn og unglinga velkomin til okkar í þessa skemmtilegu íþrótt.

Formaður Sleipnis,
Sigríður M. Björgvinsdóttir.

Nýjar fréttir