-7.2 C
Selfoss

Nýir rekstraraðilar teknir við versluninni Bakkanum á Eyrarbakka

Vinsælast

Eggert Valur Guðmundsson og Eygló Har hafa selt rekstur verslunarinnar Bakkans til hjónanna Söndru Sævarsdóttur og Júlíusar Emilssonar á Eyrarbakka. Í samtali við Eggert Val kemur fram að hann hafi haft í nógu að snúast undanfarin ár og nú sé komið að því að hægja aðeins ferðina. „Við höfum rekið þetta í ein átta ár samhliða pólitíkinni og starfi mínu fyrir Íslandspóst. Við höfum verið að velta þessu fyrir okkur í dágóðan tíma. Þá fannst mér mikilvægt að finna rétta aðilann til þess að taka við keflinu.“ Það er á Eggerti að heyra að honum þyki mikilvægt að verslunarstarfsemi haldi áfram niðri á bakkanum. „Ég er þess fullviss að rekstur dagvöruverslunar er björt á Eyrarbakka og hún er komin í góðar hendur til framtíðar. Það er nauðsynlegt að hér sé rekin verslun með því helsta. Eins og allir vita eiga minni byggðakjarnar undir högg að sækja með skerðingu á þjónustu. Það er mikið í húfi og þarf að standa vörð um það. Ég hef fulla trú á því að Sandra og Júlíus komi til með að gera þetta með sóma og tryggja verslun hér til framtíðar.“

Viðskiptavinirnir og spjallið standa upp úr

Margs er að minnast frá löngum tíma, en Eggert segir að helst séu það viðskiptavinir og góð kynni við fólk sem kemur í verslunina. „Það er auðvitað fólkið sem stendur upp úr á þessum tíma. Allir viðskiptavinirnir. Það leggja margir leið sína hingað til að spjalla og það hefur verið gefandi að fá að njóta þess,“ segir Eggert.

Engar dramatískar breytingar framundan

Nú þarf að drífa sig í að smakka pylsurnar hjá Söndru og Júlla. Mynd: Elín Birna.

Í samtali við Söndru kom fram að þeim hjónum hlakki til að þjónusta Eyrbekkinga áfram eins og verið hefur. „Við erum bara spennt fyrir þessu verkefni. Það eru engar dramatískar breytingar fram undan, en pylsupotturinn er kominn af stað svo hér er hægt að stoppa og fá sér pylsu og svo stendur til að lengja aðeins opnunartímann,“ segir Sandra brosandi. Aðspurð um frekari breytingar segir Sandra að það komi til með að gerast hægt og rólega. Þá eru dæturnar spenntar en þær munu hjálpa til við að standa vaktina þegar þarf.

Nýjar fréttir