-0.9 C
Selfoss

Mér hefur alltaf látið vel að segja sögur

Vinsælast

Helga Ragnheiður Einarsdóttir er kona alin upp í Hrunamannahreppi en hefur nú í ríflega hálfa öld búið í austurbænum á Selfossi. Hún hefur sinnt ýmsum störfum meðfram heimilishaldi og barnauppeldi en dundar nú við það sem henni sýnist best. Sund og skriftir eru þar ofarlega á blaði. Í vetur gaf hún út bókina Með björtum augum – Frá upphafi til eftirlauna og er hún til sölu heima hjá höfundi.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Nú er ég að lesa bók sem heitir Á milli landshorna, bernsku og æskuár eftir Sigurð Sigurmundsson sem var bóndi í minni sveit, Hvítárholti í Hrunamannahreppi.

Fésbókarvinur minn vitnaði í þessa bók á dögunum og minnti á hana, líkega hafði ég ekki nægan þroska til að hafa áhuga á henni þegar hún kom út  árið 1993.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Bækur sem segja frá því sem telst vera raunverulegt, einkum æviminningar og sögulegar skáldsögur.

Ertu alin upp við lestur bóka?

Ég varð snemma læs og það var til nóg af bókum heima og á næstu bæjum. Ég man líka eftir kjarngóðum bókmenntum hjá ömmu og afa á Hulduhólum í Mosfellssveit en þar fékk ég alltaf að vera einhvern tíma á hverju ári. Það var örugglega lesið fyrir mig í byrjun en snemma var ég farin að lesa sjálf og las þá allt sem ég náði í: Dísu ljósálf, Bláskjá, Dimmalimm, allar þessar hrollvekjandi barnabækur þess tíma. Ég man lítið eftir unglingabókum, en var snemma farin að lesa skáldsögur eins og Líf í læknisheldi eftir Slaughter og Þrúgur reiðinnar eftir John Steinbeck. Það var aðeins ein bók eða víst frekar tvær eða þrjár samfelldar bækur sem ég ekki fékk að komast í en það boru bækurnar um Leyndardóma Parísarborgar sem ég vissi að voru vandlega faldar í efsta skápnum í svefnherbergi mömmu og pabba. Ég reyndi heldur aldrei að nálgast þær. Svo voru líka myndskreyttar listaverkabækur um Ríkharð Jónsson og Einar Jónsson sem satt að segja og því miður komust ekki skaðlausar frá lestri okkar systkina.  Ditta mannsbarn eftir Martin Andersen Nexö hefur fylgt mér alla tíð og ég les hana helst ennþá á hverju ári.

Hvernig myndir þú lýsa lestrarvenjum þínum?

Þær eru í nokkuð föstum skorðum. Ég les þegar ég er að fara að sofa á kvöldin, sjaldan í annan tíma. Þó verð ég að viðurkenna að nú í vetur á leiðinlegasta Covid tímanum, lagðist ég í lestur nærri því allra bóka Guðrúnar frá Lundi og gat þá setið við lestur á öllum lausum stundum, líka meðfram misjafnlega áhugaverðri sjónvarpsdagskrá og langt fram á nætur. En svona græðgislestur á ég ekki við að stríða yfirleitt.

Áttu þér einhverja uppáhaldshöfunda?

Kannski á ég einn uppáhaldshöfund og reyni að eignast allt sem ég finn eftir hann en það er Björn Th. Björnsson heitinn sem var snilldarhöfundur og nærri því sama hvað hann fjallaði um, allt var svo dæmalaust skiljanlegt og vel fram sett. Við erum eða vorum reyndar skyld, bæði afkomendur Hraunfólksins í Þingvallasveitinni. Böðvar Guðmundsson er líka í uppáhaldi með Híbýli vindanna og Lífsins tré ásamt Kristínu Mörju Baldursdóttur með Karítas sögurnar sínar. En ég eltist ekki samt við allt frá þeim höfundum.

Hefur bók rænt þig svefni?

Engin sérstök bók hefur haldið fyrir mér vöku en það hefur stundum komið fyrir að ég vaki lengur en æskilegt er þegar þannig stendur á. Guðrúnar frá Lundi tímabilið í vetur er gott dæmi um slíkt.

Breytir bóklestur viðhorfi manna til lífsins?

Hvort bækur geti breytt viðhorfi eða skoðunum manna almennt hef ég lítið hugsað um en líklega getur það alveg átt sér stað. Sennilega þarf þó eitthvað meira að koma til en lesturinn einn og sér. Kannski gæti þetta helst gerst á unglingsárum áður en fólk hefur almennt skapað sína eigin persónu og er móttækilegast fyrir allskomar utanaðkomandi áhrifum. En auðvitað koma fyrir atriði í bókum sem sýna manni bæði gott og illt, sem maður þá hugleiðir og langar kannski til að leika eftir – eða ekki.

En að lokum Helga, hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú ynnir sem rithöfundur?

Mér hefur alltaf látið vel að segja frá, segja sögur eins og ég nýtti mér óspart þegar ég gegndi starfi stuðningsfulltrúa Vallaskóla. Þá þurfti ég kannski að halda ró í heilum bekk, jafnvel þeim sjöunda. Þá kom sér oft vel að gata sagt frá einhverju sem ég hafði lent í eða gat skáldað á staðnum. Ég gaf reyndar út bók í vetur sem heitir Með björtum augum, minningar frá fæðingu til sjötugs. Og sú bók segir sögur. Þess vegna eru minningar og frásagnir minn stíll, alveg vonlaust að ég myndi skrifa um  eitthvað sem ekki gæti gerst í alvörunni. Alla vega hefur mér aldrei dottið það í hug enn sem komið er.

_____________________________________________________

Lestrarhestur númer 112. Umsjón Jón Özur Snorrason.

 

Random Image

Nýjar fréttir