6.1 C
Selfoss

Friðland að Fjallabaki 40 ára

Vinsælast

Afmæli Friðlands að Fjallabaki var fagnað með málþingi á Hellu 5. september sl. í tilefni af því að 40 ár eru liðin frá friðlýsingu svæðisins. Fjöldi fólks kom og hlýddi á fyrirlestra ýmissa aðila og snæddu af kökuhlaðborði Kvenfélags Oddakirkju sem svignaði undan kræsingum. Ólafur Arnar Jónsson sviðsstjóri á Umhverfisstofnun setti málþingið sem var svo undir dyggri stjórn Eiríks Vilhelms Sigurðarsonar markaðs og kynningarfulltrúa Rangárþings ytra.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra sagði að áhugavert væri að skoða hver umræðan var í aðdraganda friðlýsingarinnar þar sem rætt var um hvort friðlýsa ætti svæðið sem friðland eða þjóðgarð. Niðurstaðan varð friðland en með það í huga að síðar yrði skoðað að gera svæðið að þjóðgarði. Guðmundur sagði að svæðið hefði alla burði til að vera þjóðgarður enda er það einstakt á heimsvísu og á yfirlitsskrá heimsminja fyrir Ísland hjá UNESCO. Hann sagði að tími væri komin til að skoða vetrarlandvörslu á hálendinu og að það yrði samstarfsverkefni Umhverfisstofnunar og Vatnajökulsþjóðgarðs og nefndi hann Hrauneyjarstarfstöðina í því tilefni þar sem góð reynsla er komin á samstarf stofnananna. Landmannalaugarsvæðið er fjölmennasti ferðamannastaður á hálendi Íslands og að öllum líkindum einnig á veturnar . Þá eru einnig fjölsóttir ferðamannastaðir í Vatnajökulsþjóðgarði í nágrenni Friðlands að Fjallabaki. Að lokum sagði Guðmundur að það væri vor í náttúruvernd á Íslandi.

Ágúst Sigurðsson sveitarstjóri Rangárþings ytra benti á að landsvæði friðlandsins væri um einn sjöundi af sveitarfélaginu og að það væri mikilvægt í augum heimamanna. Ágúst sagði að það færi vel saman að sýna svæðið, njóta þess og sækja fé. Mikilvægt væri að vernda svæðið á sama tíma og það er nýtt með ferðaþjónustu, útivist og til beitar. Ágúst fór yfir skipulagsmál í Landmannalaugum, en búið er að samþykkja deiliskipulag fyrir það svæði sem á síðan að fara í umhverfismat. Skipulagið gerir ekki ráð fyrir stórkostlegri uppbyggingu heldur lágstemmdri sem fellur vel að umhverfinu. En Ágúst benti á að mikilvægast væri að byrja á því að gera bílastæði til að taka á móti þeim fjölda bíla sem koma í Laugar yfir sumartímann.

Kristján Jónasson frá Náttúrufræðistofnun Íslands fór ýtarlega yfir þær merku jarðminjar sem eru í og við friðlandið og ástæðu þess að svæðið væri á yfirlitsskrá heimsminja Íslands hjá UNESCO.

Anna Dóra Sæþórsdóttir prófessor hjá Háskóla Íslands kynnti frumdrög af niðurstöðum vöktunar á viðhorfum ferðamanna í Landmannalaugum. Vöktunin hefur verið stunduð í 20 ár og gefur því greinargóða mynd af breytingum á viðhorfum milli ára. Helstu frumniðurstöður eru m.a. að ferðamönnum sem finnast víðerni vera hluti af aðdráttarafli svæðisins fjölgar á milli ára. Þá fjölgar þeim sem telja að viðamikil uppbygging á þjónustu í Landmannalaugum sé ekki æskileg. Upplifun á fjölda ferðamanna eykst á milli ára og í sumar upplifðu 48% ferðamanna að það væru heldur margir (30%) eða of margir (18%) ferðamenn í Landmannalaugum. En 77% ferðamanna sem tóku þátt í könnuninni voru ánægðir með dvölina á svæðinu, 95% ánægðir með náttúruna og 89% ánægðir með göngustíga á svæðinu. Það verður spennandi að sjá nánari niðurstöður úr þessari vöktun þegar búið verður að rýna betur í gögnin.

Kristinn Guðnason fjallkóngur sagði frá þrekraunum leitarmanna á Landmannaafrétt en einnig skemmtilegum sögum úr leitum. Kristinn sagði að almennt hafi bændur verið heppnir með að hafa sloppið við alvarleg slys á fjöllum þar sem allra veðra von er þegar farið er í leitir. Að lokum sagði Kristinn að samstarf og samvinna á Fjallabaki hafi batnað á síðustu árum, bæði við stjórnvöld og rekstraraðila inn á svæðinu.

Hákon Ásgeirsson starfsmaður Umhverfisstofnunar sagði frá því að vinna við stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðlandið væri langt komin og stefnt á að hún verði klár í byrjun árs 2020. Mikið er lagt upp úr samráði svo að allir hagsmunaaðilar hafi tækifæri til að koma að vinnunni á samráðsfundum eða með því að senda inn ábendingar eða athugasemdir. Hákon fór einnig yfir sögu landvörslu í friðlandinu þar sem hann las upp úr skýrslum skálavarða og landvarða sem hafa starfað á svæðinu sl. rúmlega 40 ár.

Að lokum sagði Nína Aradóttir yfirlandvörður á Fjallabaki frá störfum landvarða á svæðinu. Eftirlit með utanvegaakstri tekur stóran toll af vinnunni. Nína benti á að samstarf Umhverfisstofnunar og Vatnajökulsþjóðgarðs með sameiginlegri starfstöð í Hrauneyjum væri mikill styrkur fyrir báðar stofnanir þar sem landverðir leggja áherslu á að ná til ferðamanna áður en farið er inn á hálendið. Í Hrauneyjum er mikið lagt upp úr fræðslu og upplýsingagjöf og sérstaklega lögð áhersla á forvarnir gegn utanvegarakstri. Þá hefur fræðslustarfi verið gert hærra undir höfði í friðlandinu og í tilefni þessa að friðlandið varð 40 ára þá buðu landverðir upp á skipulagðar fræðslugöngur í Landmannalaugum og var vel mætt í flestar þeirra. Með fjölgun landvarða á svæðinu verður möguleiki að festa fræðslugöngur í sessi á næstu árum. En fræðslan er lykillinn að því að auka skilning ferðamanna á mikilvægi þess að vernda svæðið og bera virðingu fyrir viðkvæmri náttúru friðlandsins.

 

Greinin birtist fyrst á vef Umhverfisstofnunar ust.is

Nýjar fréttir