11.7 C
Selfoss

Opnunarhátíð Rannsóknaseturs um sveitastjórnarmál

Vinsælast

Föstudaginn 5. apríl nk. verður formleg opnun Rannsóknaseturs um sveitarstjórnarmál í Háskóla Íslands á Laugarvatni. Í tilefni dagsins mun Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra heimsækja rannsóknasetrið ásamt fleiri góðum gestum.

Rannsóknasetur um sveitarstjórnarmál er hluti af starfsemi Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands og er það starfrækt með stuðningi frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Rannsóknasetrið er í senn rannsókna-, fræðslu- og þjónustustofnun fyrir sveitarstjórnarstigið. Markmið þess er að efla og styðja við rannsóknir á sveitarstjórnarmálum og auka faglega þekkingu kjörinna fulltrúa sveitarfélaganna og starfsmanna í stjórnsýslu þeirra. Verkefnin eru af ýmsum toga og miða þau flest að því að styrkja starfsemi sveitarfélaganna í heild sinni en rannsóknasetrið mun einnig taka að sér sértæk verkefni fyrir sveitarfélögin í formi þjónustuverkefna meðal annars. Rannsóknarstjóri setursins er Eva Marín Hlynsdóttir, dósent í opinberri stjórnsýslu við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, en verkefnisstjóri þess með aðsetur á Laugarvatni er Helga Kristín Sæbjörnsdóttir.

Málstofa um stöðu og áskoranir kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum
Í undanfara opnunarinnar verður haldin málstofa þar sem Colin Copus, emeritus prófessor við De Montfort háskólann í Leicester, mun halda fyrirlestur sem ber heitið: Staða kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum og samspil við embættismenn: Í ljósi æ flóknari verkefna, vaxandi áreitis og aukinna krafna íbúa. Málstofan er haldin í húsnæði Háskóla Íslands á Laugarvatni en hún verður einnig send út á netinu í streymi. Fyrirlesturinn fer fram á ensku og er aðgangur ókeypis.

Mælst er til þess að þátttakendur í málstofu og gestir við opnunarhátíð skrái sig til leiks á: www.stjornsyslustofnun.hi.is. Málstofan stendur frá kl. 13 til kl. 14:30.

Kl. 15-17 verður síðan opnunarhátíðin. Erindi flytja: Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri Grundafjarðarbæjar, Colin Copus, emeritus prófessor í háskólanum Leicester, Eva Marín Hlynsdóttir, rannsóknastjóri setursins og Sigurður Ingi Jóhansson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra.

Boðið verður upp á léttar veitingar og opið fyrir skoðunarferðir um húsið.

Nýjar fréttir