-1.6 C
Selfoss
Home Fastir liðir Lögðum okkur fram um að læra heilu ljóðabálkana utan að

Lögðum okkur fram um að læra heilu ljóðabálkana utan að

0
Lögðum okkur fram um að læra heilu ljóðabálkana utan að
Valdimar Bragason Selfossi.

Valdimar Bragason er lestrarhestur Dagskrárinnar. Hann er fæddur í Reykjavík en ólst upp í Hveragerði til 14 ára aldurs þegar hann fluttist á Selfoss með fjölskyldu sinni. Á Selfossi hóf hann prentnám sextán ára gamall í Prentsmiðju Suðurlands og hefur unnið sem slíkur í rúmlega 50 ár. Auk þess hefur Valdimar verið í starfi aðstoðarkirkjuvarðar á Selfossi um árabil og séð reglulega um þáttargerð á Útvarpi Suðurlands og síðar Suðurland FM.

Hvenær kviknaði áhugi þinn á bókum?
Hann kviknaði strax á æskuárum og þá sérstaklega í Barnaskólanum í Hveragerði. Þar var ágætt bókasafn sem var notað óspart og á meðal kennara þar var Kári Tryggvason rithöfundur sem las gjarnan upp úr bókum á meðan nemendur skrifuðu stíla og æfðu sig í fagurskrift. Þar las Kári meðal annars spennusögurnar Nóttin langa og Byssurnar í Navarone eftir Alistair McLean og fangaði gjörsamlega huga minn. Haustið 1963 fór ég í bókabúð K.Á. og keypti þar ljóðabók eftir Guðmund Daníelsson Kveðið á glugga á 55 krónur og 50 aura. Sigfús Sigurðsson sem þá var verslunarstjóri í bókabúðinni mælti sérstaklega með bókinni. Síðar átti ég eftir að vinna með Guðmundi Daníelssyni í fjölda ára við blaðamennsku og bókaútgáfu, og þar er tilurð bókanna Spítalasögu og Vefarar keisarans sérstaklega eftirminnileg.

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Ég er alltaf með nokkrar bækur á náttborðinu og sömuleiðis á skrifborðinu í bókaherberginu. Núna eru meðal bóka á náttborðinu Við sem byggjum þessa borg eftir Vilhjálm S. Vilhjálmsson sem kom út í tveimur bindum 1956–1957. Stórmerkilegar viðtalsbækur sem lýsa ævi og kjörum Reykvíkinga um og upp úr aldamótunum 1900. Þessar bækur fann konan mín á fornbókamarkaði og hugsaði með sér að þetta kynni hann Valdi örugglega að meta og það geri ég svo sannarlega. Ég er líka að lesa Hrunið eftir Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing og forseta Íslands. Þá eru tvær nýlegar ljóðabækur frá bókaútgáfunni Sæmundi innan seilingar, Skin eftir Guðrúnu Hannesdóttur og Uss eftir Steinunni Arnbjörgu Stefánsdóttur. Í bókaherberginu eru líka bækur sem ég les og flétti reglulega eins og Perlur í náttúru Íslands eftir Guðmund Pál Ólafsson og bækur Jóns R. Hjálmarssonar Þjóðsögur við þjóðveginn og eftir Þórð Tómasson í Skógum því fróðleikurinn þar er óendanlegur.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Íslenskar bækur fyrst og fremst, ævisögur og viðtalsbækur og hvers kyns þjóðlegur fróðleikur og þar eru Íslendingasögurnar á meðal. Ég glugga á hverjum vetri í Njálu og finn þar ávallt nýjar hliðar á þessu ótrúlega listaverki. Ljóð hafa alltaf höfðað mikið til mín eða allt frá því ég lærði utanbókar í barnaskóla kvæði Jónasar Hallgrímssonar Ísland. Ég og bræður mínir lögðum okkur fram um að læra utan að heilu ljóðabálkana eins og Áfanga Jóns Helgasonar og Gunnarshólma Jónasar. Þá var og er Einar Benediktsson og Bólu-Hjálmar í miklu uppáhaldi og ekki vil ég gleyma Jóni frá Ljárskógum svo nokkrir úrvalshöfundar séu nefndir.

Getur þú lýst lestrarvenjum þínum?
Ég les á hverjum einasta degi í tengslum við starf mitt og svo gríp ég alltaf í bók á kvöldin. Skoða kannski eitt ljóð í rólegheitum og sökkvi mér síðan niður í fróðleik eða skemmtilestur. Ég er mjög hraðlæs og kemst því yfir glettilega mikið efni.

Hver er uppáhalds barnabókin þín?
Það er Valdi villist í Reykjavík eftir Frímann Jónsson skólastjóra, saga um lítinn dreng sem fer einn til Reykjavíkur og villist þar. Ég hafði einmitt lent í því sjálfur sjö ára gamall að fara einn með áætlunarbílnum frá Hveragerði til að heimsækja afa og ömmu í Reykjavík. Rútan stoppaði niðrí bæ og eitthvað tafði þau sem áttu að taka á móti mér svo ég lagði af stað fótgangandi inn á Laugarteig og skilaði mér þar í hús tveimur tímum síðar. Mér fannst þessi saga því að einhverju leyti vera samin um mig. Aðrar minnisstæðar barnabækur eru Strákarnir sem struku og bækurnar um Árna í Hraunkoti. Allt bækur um fjörmikla stráka og ævintýri þeirra. Tarsanbækurnar eru líka eftirminnilegar, Ævintýrabækurnar og Fimmbækurnar eftir Enid Blyton.

Áttu þér einhvern uppáhalds rithöfund?
Guðmundur Daníelsson var og er í miklu uppáhaldi hjá mér. Hann skrifaði skemmtilegar viðtalsbækur og skáldsögur auk þess að vera prýðilegt ljóðskáld og þýðandi og hann hafði gott vald á fallegu íslensku máli. Þá vil ég líka nefna Jón R. Hjálmarsson fyrrum skólastjóra og bækurnar hans sem eru hafsjór af þjóðlegum fróðleik og Guðmund Kristinsson og bækurnar hans um Selfoss og stríðsárin. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að vinna með þeim öllum.

Hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?
Ég myndi skrifa þjóðlegan fróðleik og taka viðtöl við fólk sem hefði sögur að segja og reyna þannig að bjarga frásögnum um horfinn tíma sem annars færi forgörðum. Hef reyndar punktað ýmislegt hjá mér í þessu efni mér til gamans.