11.7 C
Selfoss

Rangæingar duglegastir að synda í Hreyfivikunni

Vinsælast

Metþátttaka var í Hreyfiviku UMFÍ sem fram fór dagana 29. maí til 4. júní sl. Í ár stóðu boðberar hreyfingar í Hreyfivikunni fyrir 490 viðburðum í 60 bæjarfélögum um allt land og tók 43.000 manns þátt í viðburðunum. Þátttakendur hafa aldrei verið fleiri.

Skemmtilegt er frá því að segja að sum bæjarfélög skelltu sér í Hreyfivikuna af fullu krafti og voru á annan tug viðburða í boði í mörgum bæjum. Þar á meðal voru Seyðisfjörður, Hólmavík og Akranes sem voru með dagskrá í boði svo til á hverjum degi. Á meðal viðburðanna voru opnir tímar í líkamsrækt, golfklúbbar buðu víða upp á grunnkennslu og forsvarsmenn ferðafélaga buðu upp á fræðandi göngur. Þá var boðið upp á fjölda viðburða í Hafnarfirði auk þess sem Félag áhugafólks um íþróttir aldraðra (FÁÍA) voru með ratleik í Laugardal.

Sundkeppni sveitarfélaga er liður í Hreyfiviku UMFÍ og var hún nú haldin í þriðja sinn. Í sundkeppninni tóku 29 sveitarfélög þátt og var synt í 34 sundlaugum um allt land. Syntir voru samtals 3.215 kílómetrar.

Sundlaugargestir á Hellu tryggðu sér toppsætið annað árið í röð en þeir syntu sem svarar 453 metrum á hvern íbúa í Rangárþingi ytra. Í öðru sæti í keppninni urðu nágrannar þeirra í Rangárþingi eystra en þeir syntu sem svarar til 180 metra á hvern íbúa. Í þriðja sæti urðu íbúar í Skaftárhreppi með 133 metra á hvern íbúa. Íbúar í Ölfusi urðu í 6. sæti með 80 metra á hvern íbúa.

Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) hefur staðið fyrir Hreyfiviku UMFÍ síðan árið 2012. Þetta er samevrópskt lýðheilsuverkefni sem hefur það að markmiði að hvetja fólk til að finna sína uppáhalds hreyfingu og stunda hana í 30 mínútur að lágmarki á hverjum degi.

Nýjar fréttir