Sunnudagur, 11. desember, 2016
   
Letur

Nýjasta Dagskráin

Leita

Fagleg ákvörðun?

Kaldar kveðjur
Á fimmtudagseftirmiðdegi voru starfsmenn Sogns boðaðir af yfirmönnum Landsspítalans á fund kl. 9.00 að morgni föstudags. Forstöðumenn á Sogni fengu ekkert að vita um hvað fundurinn snerist og þaðan af síður starfsmenn til áratuga á stofnuninni.  Fundarefnið kom fljótlega í ljós, það átti að leggja niður réttargeðdeildina á Sogni eftir 4 mánuði og .... allir starfsmenn myndu missa vinnuna.  Með í för voru m.a. skrifstofustjórinn og lögfræðingur og kl.10 var fundinum lokið.  Öll hersingin gekk út og skildi 30 manns eftir með grátstafinn í kverkunum.  Slíkt er óskiljanleg framkoma af yfirlækni geðdeildar Landsspítalans gagnvart fólki sem starfað hefur á Sogni, margt hvert frá því deildin var opnuð.

Vinnuhópur heilbrigðisráðherra um Sogn frá 2006
Hinn 9. janúar 2006 skipaði þáverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra Jón Kristjánsson, fjögurra manna starfshóp sem gera skyldi úttekt á núverandi húsakynnum réttargeðdeildarinnar að Sogni og vinna frumathugun á stækkun og endurbótum. Í hópinn voru skipaðir Sveinn Magnússon, skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, formaður, Magnús Skúlason, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, Magnús Skúlason, yfirlæknir réttargeðdeildar að Sogni og Leifur Benediktsson, deildarstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.
Tveir valkostir voru settir fram og voru þeir að byggja nýja deild upp frá grunni annarsstaðar en á Sogni, eða að gera úrbætur á Sogni.
Niðurstaða starfshópsins var sú að heppilegast væri að halda starfseminni áfram að Sogni  og voru margvísleg rök tiltekin því til stuðnings, m.a. að staðsetning byði upp á margvísleg meðferðarúrræði.

Ótrúlegur árangur í starfsemi Sogns
Það sem ekki virðist hafaverið litið til í ákvarðanatöku um tilfærslu réttargeðdeildarinnar er sá frábæri árangur sem náðst hefur í meðferðum á stofnuninni.  Á þeim 19 árum sem starfsemin hefur farið fram á Sogni, þá hefur engin vistmaður brotið aftur af sér eftir útskrift. Árangurinn er því 100 %.  Ekki ætla ég að rekja hér þær aðstæður sem boðið er uppá á Sogni, en þær hef ég kynnt mér vel og vandlega og þar er boðið upp á fagleg vinnubrögð, heimilislegar aðstæður og öruggt og uppbyggilegt umhverfi.  Velferðarráðherra verður einfaldlega að horfast í augu við þessar staðreyndir og ekki síst að horfast í augu við starfsfólk sem hefur lagt metnað sinn í störf sín svo um munar.

Vinnið vandaða og faglega vinnu!
Vinnubrögð ráðherra frá 2006 eru traustvekjandi.  Slík vinnubrögð skapa stöðugleika, eðlilega framvindu, fagleg vinnubrögð og sátt í samfélaginu.  Vinnubrögðin lýsa einnig ábyrgðartilfinningu ráðherra fyrir málaflokknum þar sem hann leitast við að marka stefnu á faglegum grunni. Með þessari grein er lagt til að slíkum vinnubrögðum verði framhaldið, málið skoðað með tilliti til árangurs í starfsemi Sogns og flutningnum frestað um a.m.k. 2 ár.

Elfa Dögg Þórðardóttir, formaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga

DFS.is - Dagskráin Fréttablað Suðurlands

Útgefandi: Prentmet ehf.
Sími: 482 1944
Email: dagskrain@prentmet.is
Ritstjóri: Örn Guðnason
Vefstjóri: Björgvin Rúnar Valentínusson