Sunnudagur, 11. desember, 2016
   
Letur

Nýjasta Dagskráin

Leita

"Konur og vín" í Selfosskirkju í kvöld

Karlakór Selfoss verður með tónleika númer tvö á vortónleikaröð kórsins í Selfosskirkju í kvöld, þriðjudaginn 24. apríl kl. 20:30. Óhætt er að fullyrða að sjaldan hefur efnisskráin verið léttari og fjölbreyttari en einmitt nú hjá kórnum þegar hún er tileinkuð konum og víni. Fjölmargar söngperlur koma fyrir á 20 laga lista kórsins, fjörugar, ísmeygilegar, léttar og kraftmiklar, allt frá hinni þýskættuðu Lili Marlene sem hefur fengið íslenskan búning, til saknaðarljóða, alþekktra gleðisöngva og krefjandi einsöngslaga.  Boðið er upp á heimsókn í krána, kveðnar ástarvísur hestamannsins, sungið um söknuð, blómarósir og stúlkuna mína, að ógleymdum perlum eins og „Fram í heiðanna ró“ og „Hvað er svo glatt“. Veturinn hjá kórfélögum hefur verið viðburðaríkur og annasamur með hápunktum á jólatónleikum og samsöng með yfir 400 félögum á stórtónleikum í Hörpu í febrúar.  Þá hefur kórinn í vetur komið fram við ýmis önnur tilefni, svo sem jólasveinamóttöku, afmæli og útfarir.  Þá tók kórinn þátt í skemmtilegum tónleikum með Reiðmönnum vindanna og Helga Björnssyni, stórsöngvara, á Selfossi nýlega. Kórfélagar hlakka mikið til að færa fram afrakstur vetrarstarfsins en yfir 60 félagar hafa stundað æfingar af kappi og ætla sér að fylla Selfosskirkju af ljúfum og kraftmiklum tónum í kvöld í bland við gáska og glettni. Næstu tónleikar verða í Fella og Hólakirkju 26. apríl og á lokatónleikarnir verða á Flúðum laugardaginn 28. apríl.

DFS.is - Dagskráin Fréttablað Suðurlands

Útgefandi: Prentmet ehf.
Sími: 482 1944
Email: dagskrain@prentmet.is
Ritstjóri: Örn Guðnason
Vefstjóri: Björgvin Rúnar Valentínusson