Sunnudagur, 11. desember, 2016
   
Letur

Nýjasta Dagskráin

Leita

FSu útboð fólksflutningafélagsins SASS

Það vita eflaust fáir Sunnlendingar að árið 2005 þá forðaði þáverandi skólameistari FSu Sigurður Sigursveinsson nemendum á Suðurlandi frá milljóna tjóni. Það var eitt af þeim mörgu góðu verkum sem hann kom til leiða af sinni alkunnu fagmennsku. Skólaakstur FSu var þá boðinn út samhliða sérleyfum á Suðurlandi. Ljóst var að Vegagerðin hugðist ekki semja við Hópbílaleiguna ehf um akstur á Suðurlandi þar sem félagið var ekki tilbúið að falla frá rétti sínum vegna brota Vegagerðarinnar gagnvart félaginu á Suðurnesjum. Munur á tilboði Hópílaleigunnar ehf og annarra tilboða á skólaakstri bæði hvað Suðurland og Suðurnes varðaði nam tugum milljóna króna á tímabilinu. Þrýstingur var settur á FSu að semja ekki við Hópbílaleiguna ehf eða undirverktaka hennar. Þáverandi skólameistari Sigurður Sigursveinsson barðist hins vegar hart fyrir hagsmunum nemenda á Suðurlandi og tryggði þeim hagstæðustu fargjöld í skólaakstri sem í gildi hafa verið hjá framhaldsskólum á Íslandi eftir því sem best er vitað. Nemendur hafa sjálfir fengið greidda fasta upphæð frá ríkinu óháð hvað þurft hefur að greiða fyrir aksturinn sem slíkan og með því að festa tilboð Hópbílaleigunnar ehf í sessi þá tókst fyrrverandi skólameistara að spara  milljónir króna fyrir nemendur á Suðurlandi. Það var mikið afrek sem vert er að þakka. Nemendur á Suðunesjum nutu hins vegar ekki sömu kjara og hafa þeir orðið af milljónum króna út af lögbroti Vegagerðarinnar á sama tímabili.

Framhald á samningum

Eftir að SASS fór af stað sem beinn rekstraraðili í fólksflutningum á Suðurlandi var strax farið að vinna að því að ná umræddum akstri einnig yfir til SASS. Núverandi skólameistari, heiðursmaðurinn Örlygur Karlsson, reyndi eftir bestu getu að verja og tryggja hagsmuni nemenda. Þau rök sem SASS lagði meðal annars fram voru að þessi akstur væri útboðsskyldur og það væri ekki hægt að framlengja samningnum lengur. SASS lagði mikla elju í að komast yfir umrætt verk og þar með fjármuni nemenda sem vissulega hlýtur að muna um í sjóði fólksflutningafyrirtækisins SASS.

Útboðsgögn SASS vegna FSu

Það fyrsta sem blasir hins vegar við í útboðsgögnum SASS á skólaakstri FSu er að ekki eru allar leiðir boðnar út. SASS virðist hafa ákveðið að útboðsskylda eigi bara við þær leiðir sem SASS henti best en ekki allar leiðir. Það sem ekki verður boðið út núna á að vera sinnt beint af strætisvögnum SASS og vandséð er hvernig slíkt geti staðist  lög.  Þær leiðir sem hins vegar eru boðnar út virðast uppsettar með þeim hætti að þær veita þeim verktaka sem SASS samdi við, framhjá útboði, mikið forskot. Síðasta útboð SASS bar það einnig með sér að útboðskröfur voru mjög sérstakar og ekki gilda sömu reglur fyrir alla. Spurningin er því hvort hér sé um  sýndarútboð að ræða?

Öryggismálin og ábyrgð SASS

Nemendur FSu hafa ekki bara notið þess síðustu árin að búa við lægsta fargjald  fyrir framhaldsskólanemendur á Íslandi heldur hafa þeir einnig notið þess að búa við mestu öryggiskröfur sem boðið er upp á í hópferðabílum. Síðastliðið ár hafa öll farþegasæti verið með þriggja punkta öryggisbeltum auk þess sem internet var sett upp í bílunum á lengstu leiðunum til þess að nemendur  gætu nýtt tíma sinn sem best og ferðin verið sem ánægjulegust. Þetta var án nokkurs aukakostnaðar fyrir nemendur eða skólann. Þessari kröfu er að hluta til fylgt eftir í útboði SASS og farið er fram á þriggja punkta öryggisbelti á þeim leiðum sem boðnar eru út. Þær ferðir sem SASS hyggst hins vegar aka án útboðs eru einungis með kröfu um tveggja punkta belti en í báðum tilfellum er farið fram á að bílar verði útbúnir fyrir standandi farþega. Ekki þarf að útskýra nánar að öryggi farþega í slíkri stöðu er engan veginn ásættanlegt enda hvorki farþegasæti né öryggisbelti til staðar.

Til fortíðar í öryggismálum í boði SASS

Sú krafa um að bílar skuli flytja nemendur eða aðra farþega standandi er skelfileg afturför í öryggismálum. Sveitarstjórnarmenn á Suðurlandi hafa margir  hverjir barist hetjulega fyrir tvöföldun á Hellisheiði og lýsingu á þeim vegi í nafni öryggismála sem er frábært framtak. Að kröfu sveitarstjórnarmanna á Suðurlandi sem skipa SASS er hins vegar farið fram á það núna að farþegar skulu látnir standa í bílum á vegum Suðurlands, meðal annars á einum hættulegasta vegi landsins, Hellisheiði. Slys gera aldrei boð á undan sér og það er lágmarkskrafa til sveitarstjórnarmanna í fólksflutningarekstri að fyrirbyggja slys eins og hugsast getur. Í útboðum SASS er slíkt ekki gert heldur gerð krafa til verktaka að leyfa farþegum að standa í bílunum hvort sem honum líkar það betur eða verr. Það er gert í nafni hagræðingar og væntanlega til þess að skila fleiri krónum í kassann hjá fólksflutningafélaginu SASS. Það er þung ábyrgð sem stjórnendur SASS taka á sig vegna þessa.

Benedikt G. Guðmundsson


DFS.is - Dagskráin Fréttablað Suðurlands

Útgefandi: Prentmet ehf.
Sími: 482 1944
Email: dagskrain@prentmet.is
Ritstjóri: Örn Guðnason
Vefstjóri: Björgvin Rúnar Valentínusson