Sunnudagur, 11. desember, 2016
   
Letur

Nýjasta Dagskráin

Leita

Skeiðaáveitan

Þann 5da júní n. k. eru liðin 95 ár frá því byrjað var á Skeiðaáveitunni, 1917. Sá sem fyrstur lagði til að veitt yrði vatni úr Þjórsá yfir Skeiðin og í Flóa, var Sr. Stefán Stephensen, prestur á Ólafsvöllum á Skeiðum, árið 1880. En 43ur árum seinna, að kvöldi þann 28da maí, 1923 var vatni hleypt á skurðakerfi á Skeiðunum. 
Byrjað var á hliðarskurðum, næst Hvítá í landi Útverka og Fjalls. En áveitan kom úr Þjórsá. Notaðar voru skóflur til að stinga kekki, sem næsti maður kastaði svo upp með gaffli og hlóð upp í garða einn á móti einum, 60-80 cm. Með þessu móti voru skurðir fjærst aðaláveituskurðinum gerðir. En dýpkuðu svo er nær dróg aðalskurði, sem liggur eftir endilöngum Skeiðunum, og yfir til 2ja jarða í Villingaholtshreppi, sem höfðu sókn til Ólafsvalla. Nærri 17 km.
Aðalskurður Skeiðaáveitunnar var grafinn með skurðgröfu, sem var fyrsta skurðgrafa Íslands og flutt til Íslands frá Bandaríkjunum, í þeim tilgangi. Aðalskurðurinn er fyrsti vélgrafni skurður Íslandssögunnar, og var um 10 metra breiður. Skurðgrafan var byggð yfir skurðinn og færð til með eigin vélarafli, á hjólum sem runnu á járnteinum, sem lágu á 4ra tommu þverplönkum. Síðar fór grafan niður í Flóa og gróf fyrir Flóaáveituna. Í fyrstu var hún bilanagjörn vegna þess að hún hafði ekki verið sett rétt saman. Svo urðu afköst hennar 60 m3 á klst.
Flóðgátt var byggð á Murneyrum rétt ofan við mörk Skeiða og Gnúpverjahrepps. Steinsteypt mannvirki með 4rum gáttum. Fljótlega í vestur frá flóðgáttinni var grafið niður á klapparhaft, sem náði yfir 700 mtr. langan kafla. Var það kallað Óbilgjarna klöppin. Haftið þurfti að sprengja upp og var borað fyrir sprengiefninu með handafli. Borar voru 1-2ja metra langir og slegið á þá með sleggju og þeim snúið eftir hvert högg. Dýpt 1-1.8 mtr eftir þykkt klappar. Slæmur handardofi fylgdi þessari vinnu. Að lokinni sprengingu var vélarbóman látin lyfta 3ur tonnum af grjóti upp í kassa. Þetta gekk vel utan einu sinni að kassinn opnaðist og grjótið sturtaðist yfir Skeiðamanninn Ólaf Ketilson, síðar rútubílstjóra. Járnkall sem hann var með í höndunum, bognaði um hann sjálfan, en sjálfur var hann kominn á sleggjuna á 4ða degi.
Formlegt félag Skeiðaáveitunnar var stofnað 15da febrúar  1917 og lánaði Veðdeild Landsbanka Íslands fyrir framkvæmdum, sem hreppsnefndin ábyrgðist með tekjum sínum, sem bændur ábyrgðust síðan með veði í jörðum sínum. Síðar lentu Skeiðamenn í greiðsluþroti vegna þessa, sem lauk 1951 með góðu samkomulagi allra aðila.
Skeiðin eru með minni sveitum landsins, um 94 km2. En að sama skapi þéttbýl. Skeiðaáveitan var feyknaframkvæmd fyrir þessa litlu sveit. Allt skurðakerfi hennar var 65,6 km. auk margra flóðgarða. En árangurinn lét ekki á sér standa og allt land, sem vatnið náði til, varð með kúgæfu heyi og jókst úthey um nærri 40% næstu 10 árin og kúm fjölgaði.
Þessi mikla framkvæmd var einn aðalhvati að stofnun Mjólkurbús Flóaáveitufélagsins, eins og Mjólkurbúið hét fyrst, og hvött af Skeiðamönnum, enda stór hluti bænda á Skeiðunum, sem lagði þar inn mjólk í upphafi. Flóamenn höfðu litla reynslu af sinni áveitu, enda Mjólkurbúið stofnað sama ár og vatni var hleypt á skurði Flóaáveitunnar. Og Miklavatnsmýraráveitan var mislukkuð. Hafin var bygging Mjólkurbúsins árið eftir.
En reynsla Skeiðamanna var góð og árflóð þar tíð að auki. Skeið merkir flóð.

Gylfi Guðmundsson

 

DFS.is - Dagskráin Fréttablað Suðurlands

Útgefandi: Prentmet ehf.
Sími: 482 1944
Email: dagskrain@prentmet.is
Ritstjóri: Örn Guðnason
Vefstjóri: Björgvin Rúnar Valentínusson