Sunnudagur, 11. desember, 2016
   
Letur

Nýjasta Dagskráin

Leita

Fækkað hefur um sex lögreglumenn á Selfossi

Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri í Árnessýslu var ræðumaður í lögreglumessu í Skálholti í morgun, 1. maí, á baráttudegi verkalýðsins þar sem lögreglukórinn söng og sr. Kristján Valur Ingólfsson þjónaði fyrir altari. Ólafur Helgi kom víða við í ræðu sinni en hann sagði m.a. að stöðugildum lögreglumanna á Selfossi hefði fækkað um sex frá efnahagshruni. Þá hefur akstur lögreglubíla hefur farið hefur úr 300 þús. km á ári í  um 250 þús., eða minnkað um sjötta part.

 

Hér að neðan má sjá brot úr ræðu Ólafs Helga í Skálholti.

„Hvar er eðlilegra að ræða trúmál en í kirkju? Spurningunni er varpað fram til umhugsunar og svari hver fyrir sig. En líti menn á það að guðstrúin byggir á lögmálinu sem ætlað var að koma á reglu um samskipti manna við Guð sinn og skoði það betur má sjá að samsetning orðanna leiðir til heitis lögreglu. Flest erlend tungumál nota einhverja útgáfu af orðinu politi eða police. Við höldum okkur við það að með lögum skuli land byggja. Líkt og trúarbrögðin ætlast til af okkur skulum við heiðra bæði lög og reglu. Enda segir í hinni helgu bók að menn skuli greiða keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er.

Þar með er lögð áherzla á þá staðreynd að við skulum lúta bæði því sem Guð ætlast til af okkur og því sem lög landsins ætla okkur að gera. Eðlilega er órói í hópi lögreglumanna yfir því hvernig skorið hefur verið niður fé af fjárlögum til reksturs lögreglu í landinu. Það er óviðunandi, en hver á að hlýða lögum ef ekki þeir sem taka að sér hið mikilvæga hlutverk að halda uppi lögum og reglu. En misskilji nú engin það sem sagt er. Hér er ekki sagt að við eigum að sætta okkur við ástandið. Við skulum gera okkar til þess að vekja á því athygli að það sé óviðunandi, en nota til þess aðferðir sem sæma vörðum laga og reglu. Sækjum fram af festu með rökum og látum ekki deigan síga.

En auk þess að bera ábyrgð gagnvart löglegum yfirvöldum á Íslandi berum við mikla ábyrgð gagnvart borgurum þessa lands og ekki sízt gagnvart okkur sjálfum og fjölskyldum okkar. Þá kann að vera að erfitt geti orðið að greina hvar trúnaður okkar skuli liggja. Við þá ákvörðun er til margs að líta en ekki megum við ekki gleyma því að við höfum unnið að því eið að halda lög og stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands. Það er ekki lítil kvöð. Þvert á móti er hún mikil.

En hvar sjáum við fyrirmynd í lexíu gamla testamentisins. Ég geri veg um eyðimörkina

og fljót í auðninni. Þannig mælir Guð til mannanna að sögn Jesaja. Lítum okkur nær. Lögreglan hefur búið við þröngan kost og margir liðsmanna hennar og liðskvenna hafa þreytzt við sífelldan niðurskurð. Hættir okkur hugsanlega til þess að gleyma okkur í því ótrúlega aðhaldi sem Alþingi býr okkur? Það er ekki skrítið ef svo er. En við skulum líka líta á það sem einnig segir í Jesaja 43. kafla versum 16-19: Minnist hvorki hins liðna né hugleiðið það sem var. Nú hef ég nýtt fyrir stafni, nú þegar vottar fyrir því, sjáið þér það ekki?

Vissulega er umhverfið ekki vænt lögreglunni eins og er. Niðurskurður ríkisútgjalda er ekki sársaukalaus. Ekkert lögreglulið á Íslandi hefur farið varhluta af honum. Í því sögufræga umdæmi sem við erum stödd, Árnessýslu, sem hefur innan sinnan marka Þingvelli, Gullfoss, Geysi, að ógleymdu Skálholti og er fjölsóttasta ferðahérað í landinu, er ástandið ekki gott. Fækkað hefur í lögreglunni um 4 starfsmenn og önnur tvö stöðugildi hafa horfið vegna niðurskurðar yfirvinnu. Samtals eru þetta 6 stöðugildi eða störf sem ekki eru lengur fyrir hendi. Um afleiðingarnar læt ég öðrum að dæma, en vinnuframlag hefur minnkað um rúman fimmtung. Sama er að segja um akstur sem farið hefur úr 300 þús. km á ári í  um 250 þús. Eða minnkað um sjötta part. Velta má því fyrir sér hver áhrif slíkt hefur þótt ekki sé litið til annars en hinnar rúmlega sjö þúsund húsa sumarbyggð. Og sú hugsun hlýtur að verða áleitin hvort tölur um fækkandi afbrot séu í samhengi við minna framlag lögreglu til eftirlits.

Getur verið að við sjáum ekki tækifærin sem við þó eigum. Við skulum ekki gleyma því að mikill mannauður býr í lögreglunni á Íslandi. Vel menntað fólk með mikla reynslu í bland við yngra fólk, sem kemur betur undirbúið til náms í Lögregluskólanum en áður, er sá grunnur sem lögreglan byggir á. Kannski er það einmitt þess vegna sem við teljum okkur sjá enn betur þá ósanngirni sem okkur finnst, og sennilega með réttu, búa í hinum mikla niðurskurði sem lögreglan býr við. Og samkvæmt því sem hér segir væri það verðugt verkefni lögreglunnar að leiða þær breytingar og nýta þau tækifæri sem við skulum leita að og finna til þess að gera veg um eyðimörkina, vera í farabroddi og sýna almenningi og yfirvöldum að við séum traustsins verð. Lögreglan nýtur mikils trausts af hálfu almennings á Íslandi.

Notum þann mannauð sem við eigum til þess að finna nýjar lausnir í stað þess að festast í farvegi óánægju. Verum jákvæð horfum fram á veginn í stað þess að standa föst í því fari að minnast hins liðna eða hugleiða það sem var. Við höfum nýtt fyrir stafni og það vottar fyrir því segir Jesaja. Sjáum tækifærin sem kunna að leynast í þrengingunum? En með þessum orðum er ekki gert lítið úr þeim heldur fyrst og fremst hvatt til framsækinnar hugsunar og baráttu sem eflir okkur öllum dug og kjark. Við þurfum nú að leggja veg yfir hafið og hin ströngu vötn líkt og spámaðurinn Jesaja sagði. Við þurfum að sannfæra stjórnmálamenn um mikilvægi lögreglunnar fyrir almenning á Íslandi og að öryggis hennar sé gætt. Það kann að verða leið um eyðimörkina líkt og segir í guðspjallinu.

Þess er einnig vert að geta að lögreglumenn hafa hvergi dregið af sér hér í Árnessýslu þrátt fyrir það ástand sem að framan er lýst. Hið sama hlýtur að vera uppi á teningnum í öðrum umdæmum. Sú hugsun hvarflar að hvort það að lifa í vatnsleysi eyðimerkurinnar kenni mönnum að spara vatnið til að komast af. Það kann vel að vera, en sé algert vatnsleysi þrífst ekkert líf og þá dugar ekki að fara vel með.

Okkur er hollt að minnast þess að í hinni helgu bók skiptast á skin og skúrir mannlífsins. Stundum gengur betur og stundum lakar. Sagan um feitu árin sjö og hin jafnmörgu mögru ár sem fylgdu gæti gefið okkur von um að úr rætist. Þannig hefur mannkynssagan verið og kannski ætti það að vera lærdómur undanfarinna ára að við leitum inn á við að okkar eigin sálarstyrk. Trúin er þeim okkar sem hana höfum haldreipi í þeirri leit. Úr mun rætast. Um það eru Biblían og hagfræðingarnir sammála. Þótt oft séu hinir síðarnefndu ósammála um flesta hluti líkt og stjórnmálamenn einnig. En hvorugum ræður almenningur með góðu móti.

Við í lögreglunni getum sýnt gott fordæmi með því líta til guðspjalls Gamla Testamentisins og leggja veg um eyðimörkina og braut yfir hin ströngu vötn sem við Íslendingar þurfum að sigrast á um þessar mundir. En höfum í huga mögru árin sjö í þeirri von að hin sjö feitu fylgi og þá höfum við lært lexíuna og látið af þeim vertíðarhugsunarhætti að næst náum við góðum afla sem standi undir neyzlu, eyðslu og miklum fjárfestingum augnabliksins. Lærum af líkingu við líf í eyðimörkinni og förum vel með fjármuni og ekki sízt mannauðinn sem við eigum í lögreglunni. Þannig tryggjum við að okkar ,,öflugi her kulni ekki eins og hörkveikur“. Maðurinn er grunnur mannlífs og allra starfa í þágu þess. Sé hann ekki styrkur verður starf hans það heldur ekki“.

 

 

DFS.is - Dagskráin Fréttablað Suðurlands

Útgefandi: Prentmet ehf.
Sími: 482 1944
Email: dagskrain@prentmet.is
Ritstjóri: Örn Guðnason
Vefstjóri: Björgvin Rúnar Valentínusson