Sunnudagur, 11. desember, 2016
   
Letur

Nýjasta Dagskráin

Leita

Guðni Ágústsson og Karlakór Selfoss

Mikið vildi ég óska þess að hafa náð tökum á söng sem barn, söngurinn er áreiðanlega mjög gefandi og góður fyrir sálina.  Þótt ég syngi ekki þá syngur eitthvað innra með mér og ég finn til í söng og sum lög eins og þeir hafa oft sungið fyrir mig Selfyssingarnir t.d. ,,Undir Dalanna sól,“ eða ,,Þú álfu vorrar yngsta land,“ snertir hverja taug.  Kæru vinir í Karlakór Selfoss innilegar þakkir fyrir sönginn í kirkjunni okkar þriðjudagskvöldið 24. apríl. Og ágætu eiginkonur kórfélaganna innilegar þakkir fyrir að gefa strákunum allan þennan tíma til að syngja. Og að þið skulið öll þessi ár standa svona vel við bakið á þeim. Allar þessar erfiðu æfingar frá hausti til vors til að kafa dýpra í lögin og takast á við hljóðfærið hina dýrmætu rödd ykkar. En auðvitað víkur þreytan og tíminn sem í þetta fór gleymist og verður að unaðsstundum í minningunni þegar prógramm vetrarins er fullæft.

 

Með stjörnur í augunum

Karlakór Selfoss á sér langa sögu, hann er vettvangur gleði og lífsgæða. Kórinn er eign manna sem hafa leyft sönggyðjunni að snerta hörpu sína. Söngfélagarnir finna hjartslátt hver annars og titringinn frá innstu hjartarótum, þegar raddirnar falla í hljómhviðu og stíga í hæðir. Í vetur kaus kórinn að helga söng sinn lífsgleðinni og syngja um konur og vín. Sumardagurinn fyrsti er einstakur á Íslandi við fögnum honum með hátíð ein allra þjóða. Karlakór Selfoss gekk nú sem fyrr fram á sumardaginn fyrsta með tónleika í Selfosskirkju og opinberaði leyndarmál vetrarins, sönginn sinn. Og kallar okkur öll til hátíðar á helgum stað. Kórfélagarnir klæðast skarti  sínu og eru virðulegir, menn sviðs og söngva.  Þeir syngja betur af því að þeir eru prúðbúnir. Hugsið ykkur hvað áferðin væri önnur  ef þeir væru í flíspeysum og slitnum gallabuxum. Það er svo margt sem býr til töfrana hvort sem söngmaður á í hlut eða góður ræðumaður. Karlakór Selfoss er  enn á ný kominn til okkar fólksins síns til að leyfa okkur að heyra hversu vel þeir syngja, aldrei verið betri sögðu margir í fyrrakvöld á öðrum tónleikum kórsins. Kirkjurnar eru sönghús, Selfosskirkja verður að sönghöll á svona kvöldi. Umgjörð kirkjunnar og hljóðfæri hennar bjóða uppá það besta. Engum leiðist enginn telur stjörnur á svona tónleikum. En hinsvegar fá margir stjörnur í augun þegar söngurinn hljómar. Þeir kveða sér hljóðs með héraðssöng okkar Árnesinga ,,Þú Árnesþing,“ eftir meistarana Sigurð Ágústsson í Birtingaholti og Eirík Einarsson frá Hæli.

Söngurinn er vort mál

Söngurinn hefur verið unaðsmál okkar Árnesinga um aldir og þeir upp til fjallanna hafa átt þetta frelsi lengi, kynslóð fram af kynslóð. Heilu ættirnar eru söngfólk og lítil hreysi urðu að raddaðri höll ekkert síður en réttirnar á haustin. Þar var og er söngmenningin drukkin með móðurmjólkinni svona rétt eins og í Skagafirði. Stjórnandi kórsins hann Loftur Erlingsson  öðlaðist sönginn ungur og fór til náms í söng og nú hefur hann um nokkurra ára skeið stjórnað kórnum með glæsibrag. Þótt hann spreytti sig í tónleikahöllum Evrópu þá  kom hann heim til að þjóna gyðjunni í héraðinu sínu.  Heima er best það er Íslendingsins eðlið. Hann sýnir enn frábæra takta í söng þegar hann syngur einsöng með kórnum ,,Ég fann þig,“ sem Björgvin Halldórsson gerði frægt. Kærar þakkir Loftur Erlingsson söngbóndi frá Sandlæk.   Undirleikari kórsins er hinsvegar Skagfirðingur og organisti Skálholtsdómkirkju Jón Bjarnason. Hann fer mjúkum höndum og fimum um nótnaborð píanósins rétt eins og hestamaður sem kann að leika með fingrum sínum um beisli gæðingsins til að kalla það besta fram.

Tilþrifin eru mikil

Að þessu sinni er efnisskráin bæði létt og fjölbreytt tileinkuð konum og víni. Sönglistinn er langur 22 lög, mörg þeirra létt og kraftmikil sem falla áheyrendum vel í geð. Þeir taka reyndar saknaðarljóð sem vekja trega en yfirbragðið eru gleðisöngvar, sem magnast þegar líður á kvöldið. Við förum t.d. með þeim á krána. Hjörtur Már Benediktsson kann látbragðið vel enda gamall skemmtikraftur, hann vekur lukku. Ekki spilla hestavísurnar kvöldinu ,,Þú komst í hlaðið á hvítum hesti,“ setur andann í hæðir. Kona á hvítum hesti birtist mér sem í draumi undir söngnum, svo sameinast hún Daladætrum og einhvers staðar er Whisky-peli í hugskoti skáldsins. Ástavísur hestamannsins eiga vel við í vorgróandanum milli heys og grasa en þá voru gæðingarnir bestir. Hvað þá fallegt ljóð í þýðingu Ólafs Stefánssonar á Reykjum er frumflutt við lagið um hina þýskættuðu ástargyðju Lili Marlene. Svo fara þeir listavel með „Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur,“ og „Fram í heiðanna ró,“ þá skynjar maður að sumarið er komið.

Einsöngvari, nýr hetjutenór

Stærsta stund tónleikanna var tvímælalaust þegar ungur einsöngvari, Hermann Örn Kristjánsson frá Blesastöðum á Skeiðum steig fram og fyllti kirkjuna með fallegri tenórrödd sinni. Þarna er á ferðinni mikið efni, nýr hetjutenór Árnesinga. Yfir Hermanni er ró maðurinn gjörvilegur á sviði og greinilega fullbúinn til frekari afreka. Það er eins og meistarinn Kristján Jóhannsson hafi farið höndum um hann, enda er svo. Og hann hefur þegar numið söng heima og erlendis.

Ég óska karlakórnum til hamingju með hann og frábæra tónleika. Valdimar Bragason fór vel með hlutverk kynnis með mátulegri glettni og fágaðri framgöngu. Hafið heila þökk fyrir einstaka tónleika karlakórsmenn.

Guðni Ágústsson.

PS: Næstu tónleikar kórsins verða í Fella- og Hólakirkju fimmtudagskvöldið 26. apríl kl. 20:00 og seinustu tónleikar vorsins verða á Flúðum laugardagskvöldið 27. apríl. kl. 20:00 í félagsheimilinu.

 

DFS.is - Dagskráin Fréttablað Suðurlands

Útgefandi: Prentmet ehf.
Sími: 482 1944
Email: dagskrain@prentmet.is
Ritstjóri: Örn Guðnason
Vefstjóri: Björgvin Rúnar Valentínusson