-1.5 C
Selfoss

Jarðfræðiferð Útivistar að Tungnakvíslarjökli

Vinsælast

Útivist stendur fyrir gönguferð inn að Tungnakvíslarjökli innan við Bása helgina 23.–25. ágúst nk. Nýverið uppgötvaðist að umfangsmikil aflögun hefur á undanförnum áratugum orðið á hlíðinni norðan hans, og stendur það ferli enn. Á sama stað hafa um nokkurra ára skeið mælst djúpir jarðskjálftar og er samhengi þessara þátta ansi forvitnilegt.

Dr. Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur lýsir frá sjónarhóli jarðfræðinnar þeim breytingum sem þarna eru að eiga sér stað; dregur upp mynd af umfangi þeirra og ræðir þær frekari rannsóknir sem fyrirhugaðar eru á svæðinu. Á sunnudeginum verður farið að Steinsholtsjökli og hlaupið þar frá 1967 sett í samhengi við hið fyrrnefnda.

Fararstjórar eru dr. Þorsteinn Sæmundsson, sem annast jarðfræðihlutann, og Ingibjörg Eiríksdóttir, sem sér um utanumhald og almenna leiðsögn.

Útivist mun koma göngubrúm á Hrunaá og Tungnakvísl fyrir ferðina, svo að greiðfært verði fyrir göngufólk frá Goðalandi inn í Tungur. Áætluð gönguvegalengd er um 15 km. Ferðin er „tveggja skóa ferð“, s.s. miðlungsþung. Skráning er á heimasíðu Útivistar, www.utivist.is

Random Image

Nýjar fréttir