9.5 C
Selfoss
Home Fréttir Bækur sem hafa tengsl við mannkynssöguna höfða til mín

Bækur sem hafa tengsl við mannkynssöguna höfða til mín

0
Bækur sem hafa tengsl við mannkynssöguna höfða til mín
Elías Bergmann Jóhannsson.

Elías Bergmann Jóhannsson frá Mjóanesi í Þingvallasveit í Bláskógabyggð er lestrarhestur Dagskrárinnar. Hann er fæddur 2. janúar árið 1995 og útskrifaður sem stúdent frá Menntaskólanum að Laugarvatni 2015. Núna nemur hann félagsfræði og sagnfræði við Háskóla Íslands.

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Ég er að byrja að lesa bækurnar um Geralt (the Witcher) eftir Andrzej Sapkowski. Bækurnar komu til mín í gegnum poppmenninguna sem hefur skapast í kringum þær en bæði hafa verið gerðir vinsælir tölvuleikir um persónur bókanna auk þess að streymisveitan Netflix er að búa til þætti upp úr efni þeirra.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Bækur sem hafa einhvers konar tengls við mannkynssöguna höfða sérstaklega til mín. Þannig hafði ég einstaklega gaman af því að lesa bókina um Gamlingjann sem hvarf út um gluggann svona til dæmis. Einnig hafa hinar ýmsu sögur úr fantasíu deildinni heillað mig í gegnum tíðina.

Var lesið fyrir þig sem barn?
Ég las meira mér til gamans sem barn heldur en ég geri núna og lærði fljótt að lesa. Pabbi var samt alltaf duglegur að lesa upphátt fyrir svefninn en þá varð Einar Áskell oft fyrir valinu en pabbi var farinn að kunna allar þær frábæru sögur utan að enda lesnar fyrir öll sjö systkinin og ég þeirra yngstur. Seinna í bernskunni urðu teiknimyndasögur um Andrés, Ástrík og Tinna oft fyrir valinu.

En hvernig lýsir þú lestrarvenjum þínum?
Mér líður best að lesa í þægilegum stól undir góðum lampa. Helst með kaffibolla og lágt stillta rólegheita tónlist undir til að viðhalda stilltu og þægilegu umhverfi. Best er að lesa einn og ótruflaður.

Einhver höfundur í sérstöku uppáhaldi?
Enginn uppáhalds höfundur kemur í hugann en mér finnst mikilvægt að viðhalda fjölbreytni í lestrarvalinu og kynnast ólíkum stílum og efnistökum sem flestra höfunda.

Hefur bók rænt þig svefni?
Já í æsku og á unglingsárunum héldu bækurnar um Harry Potter og Eragon mér vakandi langt fram eftir nóttu þegar þær voru lesnar í fyrstu skiptin.

Hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?
Vegna háskólanámsins hefur kviknað mikill áhugi á sögu, mannlegum samskiptum og þróun og mótun bæði einstaklinga og samfélaga. Því yrði það líklegast skáldsaga sem byggði á raunverulegum atburðum eða aðstæðum en þó er ekki ólíklegt að það myndi allt eins eiga sér stað í einhverjum hliðar- eða fantasíu veruleika. Manneskjur og mannleg samskipti yrðu þó alltaf í fyrirrúmi.