7.3 C
Selfoss

Byggðasafn Árnesinga hefur keypt Búðarstíg 22 á Eyrarbakka

Vinsælast

Framundan eru breytingar til betri vegar á húsnæðismálum Byggðasafns Árnesinga. Mjög brýnt hefur verið að stækka eða bæta við varðveisluaðstöðu safnsins þar sem núverandi aðstaða er sprungin. Stórir gripir hafa um árabil verið geymdir í Mundakotsgeymslu á Eyrarbakka sem er algjörlega óviðunnandi geymsluaðstaða og ennfremur bíður stór safngripaeign frá sveitarfélaginu Ölfusi þess að komast í viðunnandi húsnæði. Í apríl keypti Byggðasafn Árnesinga Búðarstíg 22 á Eyrarbakka, hið svokallaða Alpan-hús, undir starfsemina og var núverandi þjónustuhús að Hafnarbrú 3 tekið upp í. Kaupin áttu sér stað í kjölfar aukafundar Héraðsnefndar Árnesinga, eiganda safnsins, sem snemma árs samþykkti að fara þessa leið til að leysa úr húsnæðisvandanum. Starfsemin færist úr 560 fermetrum í Hafnarbrúnni og Mundakotsskemmu í 1700 fermetra í Búðarstíg 22. Verða geymslur safnsins því allar á einum stað. Í Búðarstíg 22 verða einnig skrifstofur safnsins, verulega bætt þjónustuaðstaða fyrir almenning ásamt rými sem gefur möguleika til fyrirlestrahalds o.fl. Ætlunin að leigja Þjóðminjasafni Íslands ríflega 400 fermetra undir ýmsa muni sína. Flutningur safnsins úr Hafnarbrú 3 og Mundakotsskemmu í Búðarstíg 22 mun fara fram í nokkrum áföngum og er stefnt að því að flutningum verði lokið árið 2022.

Saga Búðarstígs 22
Byggingin að Búðarstíg 22 er vestarlega á Eyrarbakka, nálægt höfninni og við aðalgötuna á Eyrarbakka. Elstu hlutar byggingarinnar, skrifstofuhlutinn og gamla fiskvinnslan, eru frá 1970. Húsið byggði útgerð Þorláks helga ÁR 11 til að vinna aflann úr skipinu. Þorlákur helgi hf. var í eigu Sverris Bjarnfinnssonar og Vigfúsar Jónssonar fyrrv. oddvita. Árið 1973 seldu þeir fyrirtækið sem hlaut þá nafnið Einarshöfn hf. Þá var vinnslusalur stækkaður í norðvestur árið 1973 og árið 1981 var byggð stór steinsteypt skemma austan við vinnslusalinn. Starfsemi Einarshafnar hætti í kjölfar þess að hlutafélagið Alpan var stofnað í mars árið 1984. Lagðist þá fiskvinnslan niður og í staðinn kom álpönnuframleiðsla. Framleiðslan hófst sumarið 1985 og stóð í rúma tvo áratugi. Framleiðsla Alpan voru álpönnur steyptar úr fljótandi áli og húðaðar. Starfsemin hófst með þeim hætti að keypt var álpönnuverksmiðja í Danmörku og tæki þess flutt í Búðarstíg 22 í nokkrum skrefum. Mikill uppgangur var á fyrirtækinu á 9. áratugnum og var það stærsti aðilinn á Íslandi sem fullvann ál. Um 40 manns unnu hjá Alpan árið 1989. Það ár seldi fyrirtækið 300 þúsund álpönnur og fór framleiðslan á markaði á Íslandi, í Bandaríkjunum og Evrópu. Árið 2005 störfuðu 25 manns hjá Alpan og er þess getið í frétt að íslenska kokkalandsliðið noti eingöngu pönnur og potta frá fyrirtækinu. Framleiðslan það ár var 140 þúsund stk. Síðan fór að fjara undan starfseminni og á tímum óhagstæðs gengis krónunnar reyndist erfitt að standast samkeppni um verð. Margir starfsmanna voru erlendir á síðustu starfsárum verksmiðjunnar sem að lokum flutt til láglaunalandsins Rúmeníu. Alpan á Eyrarbakka hætti starfsemi um mitt ár 2006. Eftir að álpönnuverksmiðja Alpan fór frá Eyrarbakka keypti Fasteignafélagið Eyrarbakki húsakynnin og lét gera að húsbíla- og tjaldvagnageymslu. Einhver eigendaskipti voru á húsinu næstu árin og voru þar um skeið stundaðar sperrusmíðar fyrir húsbyggingar. Síðast eignaðist félagið Alpan ehf húsið og það gegndi aftur hlutverki húsbíla- og tjaldvagnageymslu til vorsins 2019 að Byggðasafn Árnesinga keypti það.

Fjórir húshlutar
Byggingin að Búðarstíg 22 skiptist í fjóra húshluta. Elst er skrifstofurýmið 215 fermetra og er lengst í vestur. Þar er ætlunin að skrifstofur, snyrtingar og fjölnota salur verði í framtíðinni fyrir sýningar, fyrirlestra, fundi og félagsstarf. Til hliðar er upprunalegi vinnslusalurinn sem er 453 fermetra að stærð sem kalla mætti miðrými. Er ætlunin að þar verði obbinn af safnkostinum varðveittur í framtíðinni. Norðvestur af miðrýminu er 168 fermetra salur,sem kalla má norðurrými, þar sem verður í framtíðinni aðalinngangur í þann sal og miðrýmið. Þar verða einnig geymdir margvíslegir hlutir sem tengjast safnastarfsemi eins og sýningapúlt, gínur, plexígler, gamlar sérsýningar, og annað sem ekki telst til skráðra safngripa. Austast er skemman sem er um 861 fermetri að stærð. Skemmunni verður skipt í tvennt með skilrúmi. Þjóðminjasafni Íslands verður leigður nyrðri hlutinn til 20 ára. Byggðasafn Árnesinga hyggst nýta syðri hlutann undir stóru gripina sína, eins og bíla, báta, vélar og merka baðstofuviði.

Aðlögun að nýrri starfsemi
Unnið er að viðgerðum á Búðarstíg 22 og er ætlunin að taka austasta hlutann, skemmuna, í notkun næsta vetur. Aðlaga verður allt húsið að þörfum safnsins og verður því verkefni kaflaskipt á nokkur ár. Ljóst er á ástandi hússins alls að skipta þarf um ystu klæðningu á þaki og veggjum í eldri hlutum hússins og aðlaga það að innan í samræmi við kröfur sem Safnaráð gerir til safnhúsa. Forvörður verður til ráðgjafar á öllum stigum verkefnisins. Menn á vegum Gríms Jónssonar verktaka, GJverk, sjá um framkvæmdir og er núna verið að setja upp nýjar tengingar milli skemmunnar og miðrýmis. Einnig verður í þessum áfanga settur upp brunaheldur milliveggur sem skiptir skemmunni í tvennt, nýjar iðnaðarhurðir verða í húsinu, gólf lagfærð og máluð og sett öryggiskerfi sem er skylda hjá söfnum. Umsjón með framkvæmdum er í höndum byggingarnefndar Búðarstígs 22 sem fundar eftir þörfum.

En hvað mun þetta kosta?
Í upphafi er þess að geta að Búðarstígur 22 var keyptur á 87,5 milljónir króna eða 51 þúsund krónur hver fermetri og Hafnarbrú 3 var tekinn uppí og seld á 37 milljónir króna. Ljóst er að leggja þarf í margháttaðar viðgerðir á húsinu og aðlögun að komandi starfsemi en til eru haldgóðar upplýsingar um væntanlegan kostnað. Sótt hefur verið um styrk til Ríkissjóðs í samræmi við Safnalög sem veitir viðurkenndum söfnum heimild til að sækja um styrki til kaupa eða bygginga á safnhúsum. Er því ljóst að farin er hagkvæm leið til að leysa húsnæðisvanda safnsins. Framlög Héraðsnefndar Árnesinga til Byggðasafns Árnesinga verða væntanlega hækkuð. Einnig má benda á leigutekjur sem safnið mun fá af leigðu húsnæði. Leigutekjur munu koma frá Þjóðminjasafni, mögulega útleigu á sal og spennistöðvar HS-veitna sem er til staðar í húsinu.

Húsnæðisvandinn leystur
Með tilkomu Búðarstígs 22 verður leyst úr margra ára húsnæðisvanda safnsins en það býr við mikil þrengsli í núverandi geymslum sínum. Búðarstígur 22 mun gera safninu kleyft að varðveita, rannsaka, forverja og sýna þennan menningararf Árnesinga við bestu skilyrði sem völ er á. Innri aðstaða í safngeymslum og vinnuaðstaða er jafn mikilvæg ytri aðstöðu sem gestir sjá á sýningum. Búðarstígur 22 verður hluti af starfsemi Byggðasafns Árnesinga, verður einskonar hjarta safnsins og mun þjóna fjölbreyttu sýningahaldi í Húsinu, Kirkjubæ, Eggjaskúrnum og Sjóminjasafninu á Eyrarbakka. Staðsetning húsnæðisins er ákjósanleg fyrir safnið.

Rík ástæða er til að þakka framsýnum héraðsnefndarmönnum þessa ákvörðun að kaupa Búðarstíg 22 og er ekki nokkur vafi á að menningarstarf héraðsins mun eflast með tilkomu þessarar aðstöðu og varðveisla gripa tryggð til framtíðar.

Lýður Pálsson, safnstjóri Byggðasafns Árnesinga

www.byggdasafn.is

Nýjar fréttir