7.3 C
Selfoss

Eyrarbakki – verndarsvæði í byggð

Vinsælast

Á fyrri hluta ársins 2016 ákvað bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborgar að vinna að því að stór hluti þéttbýlisins á Eyrarbakka yrði afmarkaður sem sérstakt verndarsvæði, samkvæmt lögum um verndarsvæði í byggð nr. 87/2015.

Í stýrihóp fyrir verkefnið Eyrarbakki – verndarsvæði í byggð voru skipuð Ásta Stefánsdóttir bæjarstjóri, Bárður Guðmundsson, skipulags‐ og byggingarfulltrúi, og Svanhildur Gunnlaugsdóttir og Oddur Hermannsson, landslagsarkitektar hjá Landform ehf. – allt valinkunnir íbúar á Selfossi og valdir vegna starfa sinna til að stýra verkefninu. Veittur var styrkur til verkefnisins úr húsafriðunarsjóði að fjárhæð 8,6 m.kr. en kostnaður var áætlaður um 15 m.kr.

Haustið 2017 voru haldnir tveir íbúafundir á Eyrarbakka til þess að kynna stöðu verkefnisins – annar að kvöldi til og hinn stuttu síðar um miðjan dag í miðri viku. Töluverð vinna hefur verið lögð í verkefnið og sveitarfélagið borið af því kostnað. Styrkurinn úr húsfriðunarsjóði hefur þó ekki verið sóttur.

Nú þremur árum seinna er verkefninu enn ekki lokið. Af því tilefni tók hverfisráð Eyrarbakka málið til umfjöllunar á fundi sínum í júní sl. Þar var upplýst að helstu ástæður þess að dregist hefur að ljúka verkefninu er umfang þess, en áætlað er að verndarsvæðið nái frá Einarshafnarhverfi í vestri að Háeyrarvallahverfi í austurhluta Eyrarbakka. Meta þarf varðveislugildi margra húsa á þessu svæði og fornleifaskráning er yfirgripsmikil að mati sérfræðinga vegna fjölda minja á Eyrarbakka.

Hverfisráðið ályktaði á fundi sínum um verkefnið og skoraði á bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborgar að sjá til þess að því verði lokið sem fyrst. Ályktun hverfisráðsins er svohljóðandi í heild sinni:

„Hverfisráð Eyrarbakka hefur fjallað um verkefnið „Eyrarbakki – verndarsvæði í byggð“ og leggur áherslu á mikilvægi verkefnisins fyrir vernd og varðveislu þeirrar götumyndar sem tekist hefur að varðveita á Eyrarbakka frá síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar. Ekki þarf að eyða mörgum orðum að því, hve mikla þýðingu byggðin á Eyrarbakka getur haft í markaðssetningu sveitarfélagsins sem áfangastaðar ferðamanna. Þekkt er erlendis frá, að friðuð hverfi og verndarsvæði geta verið mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn.

Hverfisráðið telur mikilvægt að bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborgar sýni í verki hver stefna hennar er í málefnum Eyrarbakka og gömlu byggðarinnar þar, ekki síst í ljósi þess að nú eru að hefjast framkvæmdir við nýjan miðbæ á Selfossi, sem munu kosta mikla fjármuni, og á að verða einhvers konar eftirlíking af gamalli byggð. Götumyndin á Eyrarbakka er einstök og mikilvægt að hún verði vernduð sem ein heild, þótt vernd einstakra bygginga skipti einnig máli. Ekki er síður mikilsvert að gætt sé vel að því, hvort og hvernig byggt verður á auðum lóðum innan væntanlegs verndarsvæðis.

Bæjarstjórnin hefur einstakt tækifæri í höndunum til þess að staðfesta menningarsögulegt gildi gömlu byggðarinnar á Eyrarbakka fyrir Sveitarfélagið Árborg, og reyndar landið í heild, og stuðla þannig að frekari þróun og uppbyggingu á þjónustu við ferðamenn í sveitarfélaginu.

Ljóst er að verkefnið um verndarsvæði í byggð hefur þegar aukið styrkveitingar úr húsafriðunarsjóði til einstaklinga sem eiga húseignir á Eyrarbakka, og eru friðaðar eða þykja varðveisluverðar. Mikilvægt er að verkefninu verði lokið, svo sú þróun haldi áfram.

Hverfisráð Eyrarbakka hvetur bæjarstjórn til þess að gera gangskör að því að verkefninu „Eyrarbakki – Verndarsvæði í byggð“ verði lokið sem allra fyrst og tillaga þar að lútandi verði send Minjastofnun Íslands til afgreiðslu í kjölfarið.“

Bæjarráð Sveitarfélagsins Árborgar hefur fjallað um ályktun hverfisráðsins og tekur undir með því í bókun sinni um mikilvægi þess að verkefninu um verndarsvæði í byggð á Eyrarbakka verði lokið. Jafnframt segir í bókun bæjarráðs: „Bæjarráð tekur undir með hverfisráðinu að bæjaryfirvöld hafa einstakt tækifæri í höndunum til að staðfesta menningarsögulegt gildi gömlu byggðarinnar á Eyrarbakka.“

Vonir eru því bundnar við það, að á næstunni verði þessu mikilvæga verkefni lokið, og tillaga um verndarsvæði í byggð á Eyrarbakka verði send mennta- og menningarmálaráðherra fyrr en síðar til staðfestingar. Eigendur friðaðra og varðveisluverðra húsa á Eyrarbakka, sem af miklum metnaði hafa lagt sitt af mörkum til varðveislu á menningararfinum, eiga það inni hjá sveitarfélaginu.

Magnús Karel Hannesson.

Það er sveitarfélaginu jafnframt til framdráttar, að hinni sögulegu byggð á Eyrarbakka verði lyft á þann stall sem henni sæmir.

Magnús Karel Hannesson,
íbúi á Eyrarbakka og formaður hverfisráðs

Nýjar fréttir