2.8 C
Selfoss
Home Fréttir Katla jarðvangur opnar gestastofu við þjóðveginn

Katla jarðvangur opnar gestastofu við þjóðveginn

0
Katla jarðvangur opnar gestastofu við þjóðveginn
Ný upplýsinga- og fræðslumiðstöð Kötlu jarðvangs að Þorvaldseyri.

Katla UNESCO Global Geopark (jarðvangur) opnaði sína fyrstu upplýsinga- og fræðslumiðstöð í sumar, í gömlu gestastofu Eyjafjallajökull Erupts við Þorvaldseyri við þjóðveg 1. Á heimasíðu Katla jarðvangs segir að um sé að ræða nokkuð lágstemmda opnun fyrst um sinn, sem felst aðallega í að veita upplýsingar og fræðslu um svæði jarðvangsins. Gert er ráð fyrir að sumarið nýtist til að móta þá starfsemi sem koma skal síðar sem byggð verður á reynslu sumarsins.

Lítil verslun með áherslu á vörur úr héraði ásamt einfaldri kaffisölu verður í húsnæðinu.

Sýning sem áður var í rýminu hefur að hluta til verið tekin niður og vinnur Jarðvangurinn að því að bæta við kynningarefni um Jarðvanginn fyrir gesti sína þar sem fjallað verður m.a. um jarðfræði, náttúru, menningu og sögu svæðisins.

Ekki verður tekinn aðgangseyrir fyrst um sinn á meðan verkefnið er í undirbúningsfasa. Jarðvangurinn biður hins vegar þá sem nýta eingöngu aðstöðuna (án keyptrar þjónustu) að greiða hóflegt gjald eða 200 kr./mann. Til að byrja með mun opnunartími gestastofunar vera kl. 9–17 alla virka daga en endurskoðast svo er líður á sumarið.

Á síðunni kemur jafnframt fram að starfsmenn Jarðvangsins séu gífurlega spenntir yfir komandi tímum og bjóða alla sem áhuga hafa velkomna í heimsókn til sín í nýju og fyrstu gestastofu jarðvangsins.