8.9 C
Selfoss

Gjöfin til íslenskrar alþýðu

Vinsælast

Í Listasafn Árnesinga er um þessar mundir verið að hengja upp margar perlur íslenskrar listasögu þar á meðal Fjallamjólk Kjarvals ásamt verkum eftir frumkvöðlana Ásgrím Jónsson, Þórarinn B. Þorláksson og síðari kynslóð listamanna eins og Gunnlaug Scheving, Jón Engilberts, Júlíönu Sveinsdóttur, Nínu Tryggvadóttur, Svavar Guðnason, Þorvald Skúlason og fleiri meistara. Allt verk úr stofngjöf Ragnars í Smára til Listasafns Alþýðu. Sýningin er samstarfsverkefni Listasafns Árnesinga og Listasafns ASÍ og sýningarstjóri er Kristín G. Guðnadóttir. Samtímis sýningunni gefur Listasafns ASÍ út veglega bók um stofngjöf Ragnars.

Í bréfi til Alþýðusambands Íslands þann 17. júní 1961 skrifar Ragnar Jónsson „Myndir þessar hef ég ákveðið að gefa samtökum íslenskra erfiðismanna – fyrir þeirra hönd Alþýðusambandi Íslands – í minningu Erlends Guðmundssonar, Unuhúsi.“ Af þeim 147 listaverkum eftir 35 listamenn, sem Ragnar gaf og teljast til stofngjafar Listasafns ASÍ eru 52 þeirra til sýnis í Listasafni Árnesinga. Að sögn Ragnars er kjarni safnsins verk eftir „fimm þekktustu listmálarana“, sem að hans mati voru þeir Ásgrímur Jónsson, Jóhannes S. Kjarval, Jón Stefánsson, Gunnlaugur Scheving og Þorvaldur Skúlason. Á sýningunni leitast Kristín við að fanga þá meginhugsun sem lá að baki söfnunarstefnu Ragnars og spegla sýn hans á íslenska listasögu. Hún skiptir sýningunni niður í þrjá kafla þar sem fyrst er að sjá upphafin og oft alvöruþrungin landslagsmálverk, því næst portret myndir af nokkrum þeirra listamanna sem eiga verk á sýningunni og að lokum er áherslan á upplausn formsins og sprengikraft litanna.

Kristín Guðnadóttir við nokkur verkanna.

Kristín G. Guðnadóttir listfræðingur er sýningarstjóri, en hún veitti Listasafni ASÍ forstöðu um árabil og hefur ritað mikið um íslenska myndlist og verið sýningarstjóri fjölmargra listsýninga. Hún er líka höfundur viðamikilla bóka um Kjarval annars vegar og Svavar hinsvegar og er líka höfundur bókarinnar Gjöfin til Íslenzkrar alþýðu.

Þessi gjafmildi athafnamaður Ragnar Jónsson er Eyrbekkingur, fæddist þar 1904 og ólst þar upp uns hann fluttist 16 ára til Reykjavíkur. Að loknu verslunarprófi tveimur árum síðar hóf hann störf hjá smjörlíkisgerðinni Smára sem hann varð síðar kenndur við, enda varð hann fljótlega hluthafi í verksmiðjunni. Í bókinni hefur Kristín líka ritað: „Dugnaður hans og atorka beindist þó ekki einvörðungu að kaupskap, því fljótlega eftir komuna til Reykjavíkur varð hann upptendraður af menningaráhuga, enda alinn upp á Eyrarbakka þar sem menningarlíf stóð í miklum blóma. Þar var sungið, leikið og spilað á hljóðfæri og á æskuheimili Ragnars skipuðu bókmenntir auk þess veglegan sess.“

Sýningin í Listasafni Árnesinga verður opnuð í dag föstudaginn 14. júní kl. 17:30. Við opnunina mun Drífa Snædal forseti ASÍ ávarpa gesti og Vignir Þór Stefánsson leikur jazz af fingrum fram á píanó. Það eru allir velkomnir á opnun og aðgangur að safninu er ókeypis. Sýningin mun standa til 15. september.

Nýjar fréttir