0.6 C
Selfoss
Home Fréttir Hvað er í kollinum á bæjarstjóranum?

Hvað er í kollinum á bæjarstjóranum?

0
Hvað er í kollinum á bæjarstjóranum?
Gunnar Egilsson, bæjarfullrúi D-lista í Árborg.

Það hrökkva kannski einhverjir við við lestur svona fyrirsagnar. Er Gunnar Egilsson nú alveg genginn af göflunum? Nei, það er ástæða fyrir þessari fyrirsögn og hún er rakin beint til orða bæjarstjórans í Árborg.

Á dagskrá síðasta bæjarráðsfundar í maí var tilgreindur liður sem bar heitið „Kaup á lausum stofum vegna leikskóla”. Þessum lið á dagskrá fundarins fylgdu engin gögn. Samkvæmt 15. gr. sveitarstjórnarlaga ber að láta fylgja fundarboði þau gögn sem nauðsynleg eru til að sveitarstjórnarmenn geti tekið upplýsta afstöðu til mála sem þar eru tilgreind. Fundarboð skal senda ásamt gögnum með a.m.k. tveggja sólarhringa fyrirvara.

Undirritaður gerði athugasemd við þetta og rétt hefði verið að fresta afgreiðslu málsins þar til gögn hefðu verið send bæjarfulltrúum. Engar upplýsingar fylgdu fundarboði um fjölda lausra stofa, verð, seljanda, hvernig staðið var að öflun tilboða, greiðsluskilmála eða annað sem skipti máli. Engin gögn voru heldur lögð fram á fundinum sjálfum.

Bæjarstjórinn taldi alveg óþarft að fresta afgreiðslunni, enda væri hann „með þetta í kollinum.“ Nú er það svo að það nægir ekki að bæjarstjórinn sé „með þetta í kollinum“. Fulltrúar í bæjarráði, hvort sem er frá meiri- eða minnihluta, eiga skýlausan rétt á því að fá með fundarboði öll gögn dagskrármáls sem nauðsynleg eru til að taka upplýsta afstöðu til afgreiðslu þess. Það sem er „í kollinum“ á bæjarstjóra telst ekki til gagna máls. Ef bæjarstjóri hins vegar ritar minnisblað um það sem er „í kollinum“ á honum og lætur fylgja útsendu fundarboði, þá getur það verið gott og gilt.

Meirihluti bæjarráðs ákvað að verða við orðum bæjarstjóra um að málið yrði afgreitt, þrátt fyrir að það væri bersýnilega andstætt lögum, og virðist því sem völd hafi færst til frá bæjarráði til bæjarstjóra. Í bókun við afgreiðslu málsins kemur fram að sveitarfélaginu hafi „boðist til kaups“ færanleg skólastofa. Ekki kemur fram hver bauð. Þetta hljómar eins og það hafi ekki verið að frumkvæði bæjaryfirvalda að leitað hafi verið tilboðs í færanlega skólastofu, heldur hafi einhver komið og boðið hana fram. Hvernig var þá með innkaupahandbók Reykjavíkurborgar sem formaður framkvæmda- og veitustjórnar skrifaði lærða grein um sl. haust, var farið eftir því sem stóð í henni?

Í bókuninni kemur líka fram að bæjarstjóra er falið „að ganga frá viðauka“. Valdið til að samþykkja viðauka við fjárhagsáætlun er í höndum bæjarstjórnar. Ég ætla rétt að vona að völd bæjarstjórnar hafi ekki líka verið færð til bæjarstjóra.

Ég verð að segja að ég er hugsi yfir þessum hugsanalestri sem ástundaður er í bæjarráði Árborgar.

Gunnar Egilsson, bæjarfulltrúi D-lista í Árborg.