6.7 C
Selfoss
Home Fréttir Heimsmeistaratitillinn í torfæru 2019 á Selfoss

Heimsmeistaratitillinn í torfæru 2019 á Selfoss

0
Heimsmeistaratitillinn í torfæru 2019 á Selfoss
Keppnisliðið Simbi. F.v.: Neðri röð: Unnar, Jón, Ívar, Orri og Baldur. Neðri röð: Ragnar, Ásgeir, Þórður og Björn. Efstur er Skúli Kristjánsson með bikarinn. Á myndina vantar Unni Skúladóttur og Oddnýju og Leu systur Skúla, en þær fylgja liðinu hvert fótmál.

Ekki vantar að Selfyssingar raki saman hverjum stórtitlinum á fætur öðrum yfir brúna þessa dagana. Í Hönefoss í Noregi vann Skúli Kristjánsson fyrir skömmu heimsmeistaratitil í torfæru á sérútbúnum bíl sínum, Simba. Bílinn hannaði Skúli og smíðaði síðasta vetur og frumraunin var tekin í torfærunni á Hellu í byrjun sumars. Það var þó ekki einungis bíllinn sem var að hefja feril sinn í torfærunni því Skúli hefur ekki keppt með eigin lið og bíl áður.

Í samtali við Skúla kemur fram að nokkrir agnúar hafi verið á smíðinni sem hafi verið lagfærðir fyrir Noregsferðina: „Við löguðum þetta til og bíllinn var í sínu besta standi. Það gekk auðvitað á ýmsu eins og gengur í svona keppni. Við lentum í því að slíta viftureim og tapa mikilvægum stigum á því. Þá bognaði hásing sem ég taldi að myndi gera út af um frekari keppni. Viðgerðarliðið sá þó við því og hún var rétt með stærðar gröfu sem var á svæðinu og þannig kláruðum við keppnina,“ segir Skúli brosandi.

Eftir báða keppnisdagana var tekinn samanlagður stigafjöldi eftir þrautirnar. Samtals fékk Skúli 3185 stig og það dugði honum í fyrsta sæti og landa þar með titlinum.

„Það var aldrei spurning um annað en að drengurinn færi alla leið í þessu. Hann er með þetta í blóðinu, enda alinn upp á verkstæðinu að Ljónsstöðum, smíðar bílinn sjálfur og hannar hann frá grunni út frá eigin hugmyndum. Þá er gríðarlega sterkt lið á bak við hann sem heldur hlutunum gangandi. Bíllinn hans er sá fyrsti með Ford mótor sem nær árangri á þessari öld, en miklar efasemdir voru um að nota Ford. Skúli ákvað að svona yrði þetta og þá var því ekkert haggað,“ segir Baldur Róbertsson, liðsmaður, aðspurður um árangurinn.

Við heimkomuna tók bæjarstjórnarmeirihlutinn og Gísli Halldór Halldórsson á móti liðinu í kaffisamsæti og fögnuðu árangrinum með Skúla og liði hans.