8.4 C
Selfoss

Frábært að loka þessu með titli á Selfossi

Vinsælast

Patrekur Jóhannesson þjálfari Selfoss hefur unnið nokkra meistaratitla sem þjálfari um ævina og var fyrst spurður hvaða þýðingu þessi titill sem vannst í fyrsta skipti á Selfossi miðvikudaginn 22. maí sl. hefði fyrir hann.

Fjórði titillinn kom með liði Selfoss
„Þegar ég var með landsliðinu var kannski aldrei raunhæft að vinna Evrópu- eða heimsmeistaratitil. Mestu afrekin þar var að komast á stórmót með landslið Austurríkis. Byrjunin á því var 2014 og ég komst á fjögur stórmót með Austurríki,“ segir Patrekur og bætir við. „Ég man mjög vel eftir fyrsta titlinum með félagsliði. Það var bikarmeistaratitill með Haukum 2014. Það var mjög stórt skref þ.e. að ná í þann fyrsta. Sama ár urðum við deildarmeistarar og töpuðum í úrslitaleik á móti ÍBV. Árið 2015 varð ég fyrst Íslandsmeistari með lið Hauka svo þessi titill á Selfossi er fjórði titillinn sem ég hef unnið á Íslandi.“

Fyrsti titill Selfyssinga og flestir heimamenn
„Ég man mjög vel eftir þessum fyrsta Íslandsmeistaratitli með Haukum. Þá unnum vil alla leikina í úrslitakeppninni 8:0. Munurinn á því liði og okkar liði á Selfossi í dag er að þar var lið sem hafði ekki unnið þrjú ár þar á undan. Unnu síðast 2010. Höfðu þá unnið þrjú ár í röð og margoft áður. Munurinn á þeim titli og þeim sem við unnum núna er sá að við erum að gera þetta í fyrsta skipti hér. Líka það að leikmannahópurinn er að mestu byggður á heimamönnum. Það eru bara Atli Ævar og Pavel og svo Nökkvi Elliða sem kemur inn í þetta hér á Selfossi. Það eru þrír leikmenn af einhverjum tuttugu sem ég nota svo það er það sem m.a. stendur upp úr. Ég vissi náttúrulega þegar ég kom fyrir tveimur árum að liðið væri efnilegt. Þá var liðið bara búið að vera eitt ár í efstu deild. Þó þeir hafi spilað vel voru þeir bara tveimur stigum frá falli. Þetta eru því búin að vera risa skref. Tímabilið í fyrra var frábært. Það var aðeins svekkjandi að ná ekki deildarmeistaratitlinum. Maður hefði viljað ná honum. Líka núna í ár, við vorum með jafn mörg stig og Haukar í deildarkeppninni.“

Þykir vænt um alla titlana
„Mér þykir vænt um alla þessa titla, sama númer hvað þeir eru. En að loka þessu með titli á Selfossi er frábært. Það er miklu erfiðara fyrir mig að vera með svona verkefni heldur en að fara í lið eins og Skjern eða Hauka þar sem þú ert með ákveðna hefð og það er búið að brjóta alla þessa múra. Svo að það gerir þetta eftirminnilegt á Selfossi,“ segir Patrekur

Boðleiðirnar eru mjög stuttar
Hvernig var umgjörðin á Selfossi þegar Patrekur kom þangað? „Þá voru náttúrulega Jóndi og Grímur þarna sem mótorar í þessu. Þeir eru ekki bara þjálfari og sjúkraþjálfari. Þeir hafa líka verið að vesenast sem stjórnarmenn og annað. Það sem er kosturinn við þetta er að boðleiðirnar eru mjög stuttar. Ef það komu upp einhver mál þá leystum við þau mjög vel innan hópsins á stuttum tíma. Síðan kemur Þórir Haralds og tekur við formennskunni. Það var náttúrulega bara himnasending fyrir félagið að fá hann inn í þetta. Hann er mikill fagmaður og í kjölfarið kemur árangurinn líka. Svo förum við í Evrópukeppnina og þar á hann heiður skilinn þó hann hafi ekki verið allt tímabilið, kom á því miðju. Ég hef ekki lent í neinu veseni. Við leystum alltaf allt og þetta var ótrúlega gott samstarf. Síðan má ekki gleyma Erni Þrastar sem er þarna með mér í akademíunni og líka Rúnar Hjálmarsson sem er með styrktarþjálfunina. Síðan kemur Vésteinn Hafsteinsson inn í þetta líka sem er svona upphafið að þessu varðandi styrkinn. Ég hef líka oft verið með Þórir Hergeirs í eyranu undanfarið. Það er það sem stendur upp úr, einnig umgjörðin og fólkið sem mætir á leikina. Ég man varla eftir leik, meira að segja á útileikjum, þar sem var ekki meira af Selfyssingum. Þetta var yndislegur tími. Maður er þakklátur fyrir að þetta hafi lokast á svona frábæran hátt. Það er líka þetta samspil á milli stuðningsmannanna og leikmannanna sem var ótrúlega mikill faktor í þessi.“

Samheldnin var okkar styrkur í restina
„Mér fannst líka gaman hvað fólk var sýnilegt. Alltaf þegar við vorum á æfingum var einhver að koma við. Líka áhugi krakkanna. Þegar við vorum að æfa og notuðum bara annað markið leyfðum við bara krökkunum að nota hitt. Þetta er eins og það á að vera í svona litlum bæjarfélögum. Samheldnin var okkar styrkur í restina. Maður sá það a strákunum, þeir voru að springa úr orku í síðasta leik. Samt voru þeir búnir að vera í hörku álagi. Einhvers staðar náðu þeir í kraftinn.“

Þetta er ekki bara að vinna titil
„Maður er hrikalega ánægður með að fá að stýra þessu með þessu góða fólki. Þetta er ekki bara að vinna titil. Ég held að þetta gefi bæjarfélaginu ákveðinn kraft. Alltaf þegar maður horfði í augun á fólki í gær [á miðvikudaginn] sá maður að þetta var eitthvað miklu meira heldur en einhver bikar í handbolta fannst mér.“

Gáfum í og þetta var aldrei spurning
Hvað með leikinn sjálfan, sástu fyrir þér að hann myndi þróast eins og hann gerði? „Nei. Maður sá að þó að þeir hafi skorað fyrstu tvö mörkin að vorum við sultuslakir. Svo að fara með fimm mörk í plús í hálfleikinn, það munar um það. Síðan var byrjunin í seinni hálfleik frábær. Þá sá maður á líkamstjáningunni að Haukarnir voru orðnir þreyttir og voru að gefa eftir, en maður var samt aldrei öruggur. Við héldum þessu og gáfum bara í og þá var þetta aldrei spurning.“

Veðjaði á hárréttan mann þar
Patrekur er búinn að vinna með strákana í Selfossliðinu í nokkurn tíma og framfarir margra eru augljósar. Skemmtilegasta sagan er um Hauk Þrastar. „Mig minnir að Örn Þrastar hefði sagt mér að ég þyrfti að kíkja á Hauk bróðir hans spila. Ég sagði já og hvert á ég að fara að horfa á hann spila? Það er í Fylkishúsinu og er 4. flokks túrnering. Ég sagði bara: Já okay, 4. flokks túrnering. Ég fór þangað upp eftir og man eftir þeim leik. Þeir unnu leikinn og urðu meistarar í 4. flokki. Um leið og Haukur kom inn í þetta hjá okkur gerði ég hann að miðjumanni númer 1. Grímur hefur örugglega fengið einhver símtöl um að þessi nýi þjálfari væri eitthvað skrítinn. Að vera að taka einhverja eldri leikmenn út og láta þennan fá þetta hlutverk. Menn sjá það í dag að ég veðjaði á hárréttan mann þar. Maður sér vel framfarirnar hjá honum.“

Margir hafa tekið framförum
„Það má líka sjá miklar framfarir hjá fleirum. Hergeir er búinn að vaxa rosalega, ef ég tek hann sem dæmi. Hann er bara einn besti varnarmaður á landinu og sýndi það líka í þessum síðustu leikjum með skotin. Þegar hann nær meiri stöðugleika í þeim getur hann alveg farið að kíkja eftir landsliðssæti segi ég. Atli Ævar kom góður og er góður. Þegar maður er kominn á þann aldur þarf maður að halda þessu. Sverri Pálsson er ákveðið verkefni eða spurning. Sá maður sem spilaði leikinn í gær [á miðvikudaginn] hef ég aldrei séð. Hann var frábær. Ég vissi alltaf að hann gæti þetta. Ef hann myndi sinna þessu enn betur, eins og kannski Haukur og Elvar þá væri hann líka að fara á stórmót. Ég held samt að hann sé bara sáttur með þetta eins og það er. Hann er strákur sem hefur alla burði til að vera yfirburða varnarmaður. Svona leikmann vantar okkur í íslenska landsliðið. Ég held að metnaður hans liggi meira í námi. Sölvi markmaður var klárlega maður úrslitakeppninnar og einn stór lykill að þessu. Og Elvar Örn er náttúrulega alveg sér kapítuli. Síðan má ekki gleyma því að Nökkvi Dan kemur inn í þetta í janúar og smellpassar inn í þetta. Það var mjög mikilvægt því Einar Sverris datt úr vegna meiðsla. Það var einhvern veginn eins og hann hefði alltaf verið þarna. Hann passaði algjörlega inn í okkar hugmyndafræði og spil og var í góðu formi. Þetta púslaðist því mjög vel og small alveg saman alveg sama hvert er litið. “

Vonandi heldur þetta áfram
„Það var ekki neitt neikvætt sem gerðist á þessum tveimur árum sem ég var á Selfossi. Auðvitað vonar maður að það haldi bara áfram. Að fólk haldi áfram þó það komi einhverjir tapleikir. Þetta verði ekki bara eitthvað eitt. Að það verði áfram sami handboltinn. Elvar og Haukur eru komnir í landsliðið og eflaust fleiri á leiðinni. Ekki kannski alveg strax enda á maður ekki að setja þá pressu. Það koma þá bara öðruvísi karakterar. Þetta bara heldur áfram. Ég er viss um það,“ segir Patrekur.

Nýjar fréttir