11.7 C
Selfoss

Öflugt starf knattspyrnudeildar Hamars í Hveragerði

Vinsælast

Starf knattspyrnudeildar Hamars er öflugt um þessar mundir og hefur ýmislegt verið brallað síðustu vikur og mánuði. Óhætt er að segja að knattspyrnuvellir í Hveragerði komi vel undan vetri og var fyrsti meistaraflokksleikur Hamars gegn Álafossi spilaður á fagurgrænni Grýlunni. Í maí býðst svo öllum börnum í Hveragerði að prófa að æfa frítt út mánuðinn.

Páskamót Hamars gekk vonum framar og var skráning með besta móti. Páskamótin og Kjörísmótin eru aðalfjáraflanir deildarinnar og sendir knattspyrnudeildin innilegar þakkir til þeirra félaga sem hafa skráð sig til leiks á liðnum árum.

Á skírdag fengu stelpurnar í yngri flokkum Hamars skemmtilega heimsókn í Hamarshöll þegar stelpur frá Bandaríkjunum tóku æfingu með þeim. Þessi hópur var úrvalshópur 14 ára stúlkna frá austurhluta Bandaríkjanna. Þetta er í annað skipti sem þær koma í Hveragerði, gista á Skyrgerðinni og æfa í Hamarshöll í vikutíma. Það var frábært fyrir okkar stelpur að fá að æfa með þeim og kynnast framtíðarstjörnum Bandaríkjanna.

Ólafur Jóhann Ævarsson, Óliver Þorkelsson og Ívar Dagur Sævarsson.

Þrír ungir Hamarsmenn, þeir Ívar Dagur Sævarsson, Óliver Þorkelsson og Ólafur Jóhann Ævarsson voru valdir til að taka þátt í hæfileikamótun KSÍ. Hæfileikamótunin fór fram í Hamarshöll 15. mars sl. undir stjórn Lúðvíks Gunnarssonar. Tuttugu leikmenn fæddir 2005 frá Suðurlandi voru valdir til að taka þátt að þessu sinni og þann 3 maí sl. voru Hamarsstrákarnir boðaðir í áframhaldandi Hæfileikamótun.

Davíðsmótið var haldið með hefbundnu sniði þann 11. maí í Hamarshöllinni. Þetta knattspyrnumót er styrktarmót þar sem að mótsgjöldin renna óskipt til nýrra málefna hverju sinni og í ár munu fjármunirnir fara til fjölskyldu Ólafíu Guðrúnar (Ollýjar) og Kristínar Hildar annars vegar og barna Sigurðar Blöndal hins vegar.

Hægt er að fylgjast með starfseminni á Facebook og Youtube Hamar knattspyrna
sem og Instagram Hamarfc.

Að lokum viljum við hvetja alla til að mæta á völlinn í sumar og styðja við bakið á Hamarsstrákunum okkar í 4.deildar baráttunni.

Nýjar fréttir