-3.5 C
Selfoss

Veðurfarsskilyrði fyrir alþjóðaflugvöll á Suðurlandi

Vinsælast

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) óskuðu eftir því að Veðurstofa Íslands (VÍ) gerði format á veðurfarsskilyrðum vegna hugsanlegs alþjóðaflugvallar á Suðurlandi. Áður hafði VÍ gert úttekt á veðurfari á Suðurlandi, byggt á veðurathugunum, en nú skildi skoða sérstaklega veður sem takmarkar notkun flugvalla. Verkefni þetta er áhersluverkefni Sóknaráætlunar Suðurlands á vegum SASS (sjá vefsíðu SASS, www.sass.is/ahersluverkefni).

Veðurfarsúttektin byggði á veðurathugunum og sýndi vel að landshlutinn er fremur hlýr en sömuleiðis getur orðið kalt inn til landsins í vetrarstillum. Einnig er hafgolan ríkjandi þáttur frá ströndinni á sumardögum. Landshlutinn er sá úrkomusamasti en mest er úrkoman undir sunnanverðum Vatnajökli og við Eyjafjöll. Meðalvindhraði er mestur með ströndinni en vindhraði getur verið umtalsverður á flestum stöðum og sviptivindasamt er nálægt fjöllum. Veðurfarsyfirlit sjálfvirku veðurstöðvanna voru gerð aðgengileg á kortavef Suðurlands (www.sass/kortavefur).

SASS óskaði eftir nákvæmari skoðun veðurfars á nokkrum stöðum á Suðurlandi með tilliti til hugsanlegs alþjóðaflugvallar. Við val á stöðum var í fyrsta lagi horft til þess að staðsetningar væru í nokkurri fjarlægð frá fjöllum þar sem fjalllendi getur magnað upp vind og valdið sviptivindum nálægt yfirborði auk þess sem fjallabylgjur og ókyrrð myndast oft yfir og hlémegin fjalla. Allt eru þetta óhagstæðar aðstæður fyrir flugvelli. Í öðru lagi var horft til þess að augljós náttúruvá væri ekki á staðnum, s.s. hætta á vatnsflóðum og jökulhlaupum, né aðrar augljósar umhverfisaðstæður sem hefðu áhrif á notkun flugvallar. Í þriðja lagi þurfti atvinnusvæðið að vera nógu stórt til að anna alþjóðaflugvelli. Svæðið frá Eyjafjöllum og að Mýrum í Hornafirði þótti ekki heppilegt vegna nálægðar við fjöll, náttúruvár og stærðar atvinnusvæðis.

Valdir voru fimm staðir. Einn í Árborg, í flóanum fyrir sunnan Selfoss, í viðbót við fjórar staðsetningar þar sem nú þegar eru flugbrautir eða flugvöllur: Hella, Bakki, Flúðir og Höfn í Hornfirði. Ekki er um staðsetningar fyrirhugaðra alþjóðaflugvalla að ræða heldur um fimm staði sem geta gefið upplýsingar um hvort að veðurfarið í nágrenninu sé ákjósanlegt fyrir slíkan flugvöll. Aðrir þættir kunna svo að takmarka svæði frekar. Sá veðurþáttur sem hefur mest takmarkandi áhrif á notkun flugvalla á Íslandi er hliðarvindur og var því höfuðáhersla á þann þátt. Notuð voru gögn úr íslensku endurgreiningunni, þar sem möskvastærð er 2,5 km, fyrir tímabilið 1980—2017.  Horft var til notkunar tveggja brauta flugvallar og reiknað út mat á nothæfisstuðli fyrir þrjár hliðarvindstakmarkanir: 10, 13 og 20 hnúta sem samsvarar 5,1, 6,7 og 10,3 m/s.

Niðurstöður þessa formats gefa til kynna að mesta mögulega nýting fengist á hverjum stað ef flugbrautirnar væru nær hornréttar á hvora aðra, enda lágmarkast þá hliðarvindur á aðra brautina þegar hann er mikill á hinni. Hæsta mat á nothæfisstuðli fyrir 13 hnúta hámarkshliðarvind var í öllum tilvikum yfir 95%, sem er ráðlegging Alþjóðaflugmálastofnunarinnar. Fyrir hæstu hliðarvindstakmörkin, 20 hnúta, var matið í öllum tilfellum 100%, þ.e. engin skerðing í notkun vegna hliðarvinds. Nálægð hárra fjalla lækkaði nothæfisstuðla á Bakka og Höfn í Hornafirði fyrir lægri takmörk miðað við mat á hinum stöðvunum. Hæstu gildin fengust aftur á móti fyrir Hellu og Flúðir. Vísbendingar eru um að matið sé heldur hátt, þ.e. að endurgreiningin vanmeti eitthvað hærri vindhraða. Einnig er ljóst að aðrir takmarkandi veðurþættir, s.s. vindhviður, ókyrrð, lág skýjahæð og lélegt skyggni (t.d. vegna þoku), geti dregið talsvert úr nothæfi en mismikið eftir staðsetningum.

Þessi forathugun gefur til kynna að aðstæður séu veðurfarslega nokkuð hagstæðar fyrir tveggja flugbrauta alþjóðaflugvöll á Suðurlandi, ef valin er staðsetning í nokkurri fjarlægð frá fjöllum. Líklega er þó matið heldur of hátt fyrir hliðarvind auk þess sem ekki er tekið tillit til annara takmarkandi veðurþátta. Augljóst er að ef ákveðið yrði að fara í slíka uppbyggingu á Suðurlandi þyrfti að hefja sem fyrst veðurathuganir, þar sem staðbundið yrði mælt a.m.k. vindur, hiti, úrkoma, skýjahæð og skyggni í nokkur ár.

Guðrún Nína Petersen veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands

Þórður Freyr Sigurðsson sviðsstjóri Þróunarsviðs SASS

Hér má kynna sér skýrsluna nánar.

Random Image

Nýjar fréttir